Fleiri en 200 einkaþotur á mánuði

Guðmundur segir hugsanlega ástæðu fyrir því að fólki telji að …
Guðmundur segir hugsanlega ástæðu fyrir því að fólki telji að fleiri þotur séu á vellinum en fyrir kórónuveirufaraldurinn vera að einkaþoturnar séu orðnar stærri og fyrirferðarmeiri. mbl.is/Árni Sæberg

Rúmlega 200 einkaþotur lenda mánaðarlega á Reykjavíkurflugvelli, eða sem nemur um sjö vélum á dag að jafnaði. Þetta segir Guðmundur Þengill Vilhelmsson, forstjóri og eigandi Iceland Aero Agents (IAA), í samtali við Morgunblaðið.

IAA þjónustar um helming þessara einkaþotna á Reykjavíkurflugvelli eða um 100 á mánuði. Að sögn Hákons Öder Einarssonar, rekstrarstjóra ACE FBO, annast ACE FBO þjónustu við hinn helminginn.

Þessi tvö fyrirtæki þjónusta nær allar lúxusþoturnar sem lenda á Reykjavíkurflugvelli en að sögn þeirra er Reykjavíkurflugvöllur mjög mikilvægur fyrir lúxusferðalög til Íslands.

Að sögn Guðmundar þjónustar fyrirtækið um 15 vélar á dag þegar mest lætur og sömu sögu er að segja af ACE FBO. Getur því komið fyrir að allt að 30 einkaþotur lendi á Reykjavíkurflugvelli á einum degi. Guðmundur ítrekar þó að dagarnir séu ákaflega misjafnir að þessu leyti.

Jafnvel meira en fyrir Covid

„Það hefur verði veldisvöxtur í þessu í sumar miðað við síðustu sumur vegna kórónuveirufaraldursins. Fólk finnur fyrir rosalegri fjölgun, því það hefur ekki verið vant að sjá svona margar einkaþotur á vellinum síðastliðin tvö ár,“ segir Guðmundur.

Að sögn Guðmundar er fjöldi einkaþotna núna sambærilegur því sem var fyrir kórónuveirufaraldurinn og fjöldinn jafnvel að aukast enn frekar.

Guðmundur segir munaðarferðamennsku á Íslandi í miklum vexti um þessar mundir og að einkaþoturnar leiki þar mikilvægt hlutverk. Hann ítrekar mikilvægi þess og bendir á að þess háttar ferðamennska skili mikilli innkomu fyrir ferðaþjónustuna og ríkissjóð og efli þannig hagvöxtinn.

Nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert