Hefja athugun á starfsemi vöggustofa

Nefndin mun kanna starfsemi vöggustofu að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsenfélagsins.
Nefndin mun kanna starfsemi vöggustofu að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsenfélagsins. Ljósmynd/Aðsend

Skipun nefndar um heildstæða athugun á starfsemi vöggustofu að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsenfélagsins var samþykkt á fundi borgarráðs í dag.

Kjartan Björgvinsson héraðsdómari verður formaður nefndarinnar og með honum verða Urður Njarðvík, prófessor í barnasálfræði og fyrrverandi deildarforseti Sálfræðideildar Háskóla Íslands, og Ellý Alda Þorsteinsdóttir félagsráðgjafi.

Starfsmaður nefndarinnar verður Trausti Fannar Valsson lögfræðingur og dósent við HÍ, að því er segir í tilkynningu.

Muni ljúka störfum í mars á næsta ári

Nefndin mun vera sjálfstæð og óháð í störfum sínum og verður heimilt að leita aðstoðar og upplýsinga hjá aðilum innan og utan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar við einstaka þætti athugunarinnar. Áætlað er að nefndin ljúki störfum eigi síðar en 31. mars 2023.

Borgarráð samþykkti einnig að gera breytingu á einum staflið í starfi nefndarinnar, d-lið.

Með breytingu verður d-liður: Að lýsa öðrum atriðum sem tengjast starfsemi vöggustofanna og nefndin telur þarfnast skoðunar, þar á meðal eins og kostur er afdrifum þeirra barna sem vistuð voru á vöggustofunum eftir að dvölinni lauk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert