Kemst alltaf upp um svonalagað

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. Ljósmynd/Neytendasamtökin

„Ég myndi ætla það að þegar einhver tekur hönnun annarra og kynnir sem sína eigin þá sé það klárlega bara hönnunarstuldur,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, í samtali við mbl.is.

„Í gegnum tíðina hefur þetta verið tiltölulega þekkt, en þá er yfirleitt verið að herma eftir þekktum vörumerkjum.“

Upp kom sá orðrómur á dögunum að vörur sólgleraugnamerkisins Moxen Eyewear væru keyptar á Ali Express. Eigendur vörumerkisins hafa hins vegar þvertekið fyrir það að gleraugun séu pöntuð þaðan.

Frjáls álagning á Íslandi

„Stundum er þessu öfugt farið, þegar óþekktu vörumerki er gefið eitthvað þekkt nafn,“ segir Breki sem vildi aftur á móti ekki tjá sig um umrætt mál.

„Hins vegar er álagning á Íslandi frjáls, þannig að það er hverjum sem er heimilt að kaupa vöru á lágu verði og selja hana á hærra verði.

Við sjáum dæmi um það hjá heildsölum, það er að segja þeir kaupa vöru að utan og væntanlega þurfa þeir að leggja eitthvað á hana til þess að hafa í sig og á, og svo sem ekkert óeðlilegt við það.“

Ekki ólöglegt ef leyfi er til staðar

„Ef viðkomandi hefur leyfi hönnuðar eða framleiðanda til þess að merkja vöruna sínu eigin nafni, þá er það svo sem ekkert ólöglegt þannig, en það er spurning um siðferði slíks.

Líka hitt að við lifum á þannig tímum að það kemst alltaf upp um svona, það er ekkert hægt að fela það af því að internetið er nánast í vösum allra.“

Spurður hvort svona mál séu að verða algengari hér á landi segist Breki ekki vita til þess. „Við höfum svo sem ekkert fengið fleiri eða færri ábendingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert