Líkur eru á að fuglaflensan berist aftur í haust

Sterkar vísbendingar eru um að fuglaflensuveiran berist til landsins í …
Sterkar vísbendingar eru um að fuglaflensuveiran berist til landsins í haust. Ljósmynd/Andrés Skúlason

Aukið viðbúnaðarstig vegna fuglaflensu er enn í gildi hjá Matvælastofnun (MAST) og gera má ráð fyrir að það gildi út sumarið. Hefur þó dregið úr tilkynningum frá almenningi um veika eða dauða villta fugla frá því í vor, að sögn Birgitte Brugger, sérgreinadýralæknis alifugla hjá MAST.

„Í vor fundum við þetta aðallega í súlum, þær hafa helst verið að drepast miðað við tilkynningar frá almenningi. Hvort þetta hafi aðeins verið að fjara út núna í júlí veit ég ekki, en það var aðeins að draga úr tilkynningum svona eftir miðjan júní,“ segir Birgitte í samtali við mbl.is.

Toppnum náð í súlunum

Spurð hvort toppnum hafi verið náð hvað varðar fuglaflensusmit segir Birgitte:

„Allavega í súlunum, svo verður þetta bara að koma í ljós í haust hvernig þetta heldur áfram. Yfir sumartímann er almennt minni smithætta, þá er meiri dreifing á villtu fuglunum og þeir eru ekki svona þétt saman á varpstöðunum, svo það er yfirleitt minni smithætta, þó svo að hún sé ennþá til staðar.“

Hafa áhyggjur af haustinu

„Við þurfum að fylgjast með haustinu og við höfum vissar áhyggjur, við getum fengið þetta með fuglum sem koma til baka frá varpstöðum í Grænlandi og Austur-Kanada. Það eru sterkar vísbendingar um að það geti gerst í haust og við verðum bara að fylgjast með því.

Það hafa verið mörg smit núna í Austur-Kanada og einmitt á stöðum þar sem okkar fuglar fara á sumrin. Þarna hafa verið töluverð afföll í súlum, æðarfuglum og lundum, þó svo að við höfum ekki fundið þetta í lundum hér, að minnsta kosti ekkert sem við vitum um,“ segir Birgitte.

„Við viljum endilega fá áfram tilkynningar frá almenningi, þegar fólk finnur dauða fugla. Við erum ekki laus við smithættuna þó svo að hún sé sem betur fer minni en hún var í vor.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert