„Ístak er að laga skemmdirnar í GAJU. Svo er enn verið að ræða við Ístak um ýmis mál á gallalistanum. Það tekur einhvern tíma enn,“ segir Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri SORPU. Hann segir að menn vilja fara vandlega yfir þessi atriði, en engin þeirra geti talist vera stór.
Hann segir að aðilar málsins, verktakinn Ístak, Verkfræðistofan Efla sem hannaði húsið og verkkaupinn Sorpa, hafi ekki verið sammála um hvað olli því að loftaklæðningin myglaði. Ljóst er að rakamyndun inni í moltugerðinni var meiri en menn höfðu búist við.
„Þegar hús er hannað þarf að taka til greina þá ferla sem húsið á að hýsa. Ístak og Efla benda á að þeir ferlar hafi ekki verið forskrifaðir nægilega vel og ekki verið nógu skýrir. Það hefur farið mikil vinna í að fara í gegnum gömul hönnunarskjöl, fundargerðir og ákvarðanir sem voru teknar. Menn eru sammála um stóru myndina en við erum að vinna í því að leysa ákveðin útfærsluatriði,“ segir Jón Viggó. Hann segir að lítil spurn sé eftir moltu og því hafi framleiðslustöðvunin ekki valdið miklu fjárhagslegu tjóni.
Engin truflun hefur orðið á starfrækslu gasgerðarstöðvarinnar í GAJU sem framleiðir metan. Framleiðsla á því hefur aukist jafnt og þétt.
„Við erum að nálgast hámarksafköst í móttöku efnis til metanframleiðslu. Við erum alltaf að fá betra og betra lífrænt hráefni til gasgerðar. Höfuðborgarsvæðið er allt að fara í söfnun á lífrænum úrgangi frá heimilum um áramótin. Við sjáum því fram á bjarta tíma í metanvinnslu,“ segir Jón Viggó. „Metan úr GAJU er notað til að knýja bíla á höfuðborgarsvæðinu og einnig í ýmsum iðnaði.“
Vinnslutæknin byggist á einkaleyfi frá Aikan Solum AS í Danmörku. Jón Gunnar segir það taka tíma að ná fullum afköstum í gasgerðarstöðinni. Unnið sé að því í samvinnu við Aikan. Mikil sjálfvirkni er í verksmiðjunni og starfsmenn 5-6 talsins. Verksmiðjan framleiðir nú um eina milljón rúmmetra af metani á ári. Vonir standa til þess að hægt verði að auka framleiðsluna upp í tvær milljónir rúmmetra innan hálfs árs.
„Það gengur gríðarlega vel að losna við metanið. Það var gerð áætlun um að metan myndi gegna stóru hlutverki í orkuskiptum í samgöngum. Það hefur ekki gengið eftir varðandi fólksbíla, flestir eru að fá sér rafbíla,“ segir Jón Viggó. „Hins vegar er mikill áhugi á að nota metan á millistóra flutningabíla og sendiferðabíla. Menn hafa verið að kaupa þannig bíla að undanförnu, líklega vegna hækkandi verðs á dísilolíu.“
Nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.