Karlmaður sem handtekinn var vegna skotárásar í Miðvangi í Hafnarfirði í síðasta mánuði hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi vistun á viðeigandi stofnun í fjórar vikur. Þetta staðfestir Eiríkur Valberg, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Eiríkur segir ekki enn búið að gefa út ákæru í málinu, en rannsókn er enn í gangi. Segir hann að rannsókninni miði vel áfram.
Upphaflega var maðurinn úrskurðaður í fjögurra vikna vistun á viðeigandi stofnun, en sá úrskurður rann út í gær. Mun nýi úrskurðurinn því renna úr 17. ágúst.
Árásin er rannsökuð sem tilraun til manndráps. Maðurinn, sem grunaður er um að hafa skotið á tvær kyrrstæðar bifreiðar milli fjölbýlishúss og leikskóla, er á sjötugsaldri. Af ummerkjunum á bílnum sem skot hæfði, má leiða líkur að því að um maðurinn hafi notað riffil.
Vistun á viðeigandi stofnun er hliðstætt úrræði við gæsluvarðhald og þurfa því skilyrði fyrir gæsluvarðhaldi að vera uppfyllt svo unnt sé að úrskurða einstakling í slíka vistun, en úrræðinu er beitt í undantekningartilfellum.