Öll gisting uppbókuð í Rangárþingi eystra

Á Hvolsvelli í Rangárþingi eystra búa um 1000 manns.
Á Hvolsvelli í Rangárþingi eystra búa um 1000 manns. mbl.is

„Nú lítur úr fyrir að öll gisting í sveitarfélaginu sé uppbókuð um helgina,“ segir Margrét Jóna Ísólfsdóttir, fjármála- og skrifstofustjóri sveitarfélagsins Rangárþings eystra. Mal­ar­hjóla­keppn­in Rift verður hald­in um helgina en ráslínan verður við félagsmiðstöð á Hvolsvelli.

Margrét segir alla jafna vera erfitt að fá gistingu á svæðinu á þessum árstíma, enda háönn í ferðaþjónustu. Rangárþing eystra sé mjög vinsæll áningastaður fyrir ferðamenn, ekki síst vegna þess að fjöldinn allur af náttúruperlum eru í sveitarfélaginu. 

Því hafa keppendur Rift eflaust þurft að keppast um gistingu nálægt ráslínu en hátt í 1.100 manns eru skráðir til leiks. Skipuleggjendur keppninnar telja að nálægt því tveir aðstandendur að meðaltali komi með hverjum keppanda sem kemur erlendis frá. Aðeins 100 Íslendingar hafa skráð sig til leiks.

Lyftistöng fyrir samfélagið

„Það er mikil lyftistöng fyrir samfélagið að svo umfangsmikill og stór íþróttaviðburður sé haldinn í Rangárþingi eystra. Sveitarfélagið hefur lagt sitt af mörkum við undirbúning keppninnar, þannig að hún geti farið fram á farsælan hátt. Til dæmis veður sundlaug sveitarfélagsins með lengdan afgreiðslutíma um helgina, þannig að keppendur og aðrir gestir á svæðinu geti komist í sund,“ segir Margrét Jóna.

Hún segir að félagsmiðstöð sveitarfélagsins verði nýtt sem húsnæði fyrir mótsstjórn en ráslína keppninnar er nokkrum metrum frá félagsmiðstöðinni. Tjaldstæðið á Hvolsvelli, sem mun hýsa hluta keppenda, verður stækkað töluvert um helgina og ljóst að bærinn verður undirlagður af keppendum og fylgdarliði. Það má því segja að það verði líflegt á Hvolsvelli um helgina.

„Keppnin kemur til með að setja lit sinn á bæinn og ætti ekki að fara fram hjá neinum, hvorki íbúum né gestum. Til að mynda mun hluti Hlíðarvegar verða lokaður fyrir allri umferð vegna keppninnar frá kl 18 á föstudag til kl 22 á laugardagskvöld. Hægt verður að aka um merktar hjáleiðir. Álag á Fljótshlíðarveg verður líka mikið á laugardaginn, sérstaklega á milli kl 13 og 17, þegar flestir keppendur eru á leið í mark,“ segir Margrét.

Malarhjólakeppnin Rift verður haldin um helgina.
Malarhjólakeppnin Rift verður haldin um helgina. Ljósmynd/Arnold
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert