Umræðan um #metoo og kynferðisofbeldi á langt í land en mjakast þó í rétta átt. Fjölmiðlar hafa verið duglegri við að fjalla um þessi málefni þó vanda mætti fréttaflutning betur. Druslugangan hefur verið mikilvægur liður í því að vekja fólk til umhugsunar og breyta umræðunni til hins betra. Þetta segir Arnar Kjartansson, einn af skipuleggjendum göngunnar.
„Mér finnst þúsaldarkynslóðin vera miklu meira vakandi fyrir þessu og sýni miklu meiri stuðning við þolendur en kynslóðin á undan. Á endanum eru alltaf fávitar en þeim fer fækkandi,“ segir Arnar og bætir við: „Það er alveg langt í land en mér finnst við færast í rétta átt.“
Druslugangan verður haldin í fyrsta sinn í þrjú ár á laugardaginn. Markmið hennar er að vekja athygli á að ábyrgð kynferðisglæpa liggur hjá gerendum en ekki þolendum. Gangan hefst klukkan tvö en farið verður frá Hallgrímskirkju, niður Skólavörðustíg, Bankastræti og að lokum á Austurvöll, þar sem við taka fundarhöld og tónleikar.
Þetta árið verða áherslur Druslugöngunnar þær að vekja umræður um þátt valdakerfa á Íslandi í berskjöldun jaðarsettra hópa fyrir kynferðisofbeldi.
„Þetta var málefnið sem átti að taka fyrir í fyrra en við ákváðum að halda áfram með það, sérstaklega út af því sem hefur verið í umræðunni í samfélaginu síðasta eitt og hálft til tvö ár.
Margir valdamiklir einstaklingar í þjóðfélaginu, sem hafa verið sakaðir um ofbeldi, hafa tekið þátt í umræðunni. Mikilvægt er að halda þeirri umræðu gangandi því hún á það til að vera uppi í einn, tvo mánuði og síðan fjara út.“
Arnar kveðst vona að fleiri strákar láti sjá sig í göngunni í ár til að sýna stuðning. Þá megi heldur ekki gleyma að þeir verði einnig fyrir kynferðisofbeldi.
„Ég veit ekki nákvæmlega hvernig kynjaskiptingin hefur verið síðustu ár en það er rosalega mikilvægt að öll kyn mæti og sýni stuðning.“
Í kvöld verður Peppkvöld Druslugöngunnar haldið á KEX hostel sem hefst klukkan átta þar sem gestir fá m.a. tækifæri til að kaupa varning, perla og skrifa vel valin skilaboð á skilti sem hægt verður að taka með sér í gönguna.
Að sögn Arnars er undirbúningur í fullum gangi en mikil nýliðun hefur verið í teyminu sem sér um gönguna. Eru því einungis tveir einstaklingar sem hafa komið að skipulagningu Druslugöngunnar áður. Það var þegar takmarkanir vegna Covid-19 stóðu enn yfir og var göngunni því aflýst þá.
„Við erum öll að sjá okkar fyrstu göngu verða að veruleika. Þetta er mjög spennandi.“