Lagt verður fyrir næsta fund bæjarráðs Vesturbyggðar að ráða Þórdísi Sif Sigurðardóttur sem næsta bæjarstjóra sveitarfélagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Vesturbyggðar.
Áður var Þórdís sveitarstjóri Borgarbyggðar frá 2020 til 2022 undir meirihluta Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna, en meirihlutinn var felldur í kosningum þegar Framsóknarflokkurinn fékk fimm fulltrúa kjörna í sveitarstjórnina. Tilkynnti Þórdís í kjölfarið að nýr meirihluti hefði ákveðið að endurráða hana ekki.
Þórdís var einnig áður bæjarritari og staðgengill bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar á árunum 2013-2020. Þá sat hún í ýmsum stjórnum og starfshópum, m.a. í starfshóp um aðgerðir á Flateyri í kjölfar snjóflóðs, í stjórn Brákar húsnæðissjálfseignarstofnunar, Gleipnis nýsköpunar- og þróunarmiðstöðvar, Blábankans á Þingeyri og Lýðskólans á Flateyri.
Þórdís er með meistarapróf í lögfræði frá Háskóla Reykjavíkur og B.sc. gráðu í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst.
Fram kemur í tilkynningu sveitarfélagsins að ráðning Þórdísar taki formlega gildi þegar hún hefur verið staðfest á næsta fundi bæjarráðs.