Áætla um 2,5 milljarða í hjúkrunarheimili á Höfn

Sveitarfélagið Hornafjörður greiðir 24,7% heildarkostnaðar.
Sveitarfélagið Hornafjörður greiðir 24,7% heildarkostnaðar. mbl.is/Kjartan Þorbjörnsson

Búið er að samþykkja tilboð Húsheildar ehf. í byggingu 30 rýma hjúkrunarheimilis á Höfn í Hornafirði. Um er að ræða viðbyggingu við eldra heimili, Skjólgarð, sem uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru til húsnæðis og aðbúnaðar á hjúkrunarheimilum í dag.

Frá þessu er greint í tilkynningu Stjórnarráðsins en tilboðið var samþykkt af heilbrigðisráðuneytinu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu og sveitarfélaginu Hornafirði.

Framkvæmdakostnaður 2,5 milljarðar króna

Nýtt hjúkrunarheimili verður reist á  lóð Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Víkurbraut 31. Fyrirhugaðar framkvæmdir eru annars vegar nýbygging upp á 1.400 m² að stærð og hins vegar breytingar á núverandi byggingu, sem er 880 m² að stærð eða samtals 2.280m².

Miðað er við að framkvæmdir hefjist á haustmánuðum 2022 og að heimilið verði tekið í notkun árið 2024. Áætlaður framkvæmdakostnaður vegna byggingar hjúkrunarheimilisins eru tæplega 2,5 milljarðar króna.

Samkvæmt tilkynningunni munu heilbrigðisráðuneytið og sveitarfélagið Hornafjörður standa saman að byggingu hússins og breytingum sem gerðar verðar á hluta eldra húsnæðis í tengslum við framkvæmdina.

Verkefnið verður fjármagnað þannig að ríkissjóður greiðir 75,3% heildarkostnaðar en sveitarfélagið Hornafjörður 24,7%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert