Ábyrgð fólks í embættum meiri en hjá almenningi

Jódís Skúladóttir flutti ræðu á Alþingi í tilefni dagsins.
Jódís Skúladóttir flutti ræðu á Alþingi í tilefni dagsins.

Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri grænna, telur ummæli sem vararíkissaksóknari lét falla á Facebook í gær um hælisleitendur og samkynhneigða menn, vera hneyksli og til skammar fyrir embættismanninn. 

„Það eru þessi viðhorf í garð flóttafólks og þessi viðhorf í garð hinsegin fólks sem viðhalda þeirri stöðugu ógn sem fólk býr við,“ skrifar Jódís í færslu á Facebook.

Ummælin sem um ræðir birti Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari í gær þegar hann deildi frétt á Facebook um hælisleitendur. Þau voru eftirfarandi:„Auðvitað ljúga þeir. Flestir koma í von um meiri pening og betra líf. Hver lýgur sér ekki til bjargar? Þar fyrir utan er einhver skortur á hommum á Íslandi?“

Færslan vakti upp hörð viðbrögð og hefur dómsmálaráðherra m.a. sagt að færslan hafi slegið sig illa. Vakti hann jafnframt athygli á því að rík­is­sak­sókn­ari hafi sett siðaregl­ur sem gilda um ákær­end­ur í land­inu. Felist það m.a. í að sýna sómasamlega framkomu og rýra ekki traust til ákæruvaldsins.

Mikilvægt að fólk taki ábyrgð

„Við erum að horfa upp á bakslag í baráttu hinsegin fólks víða um heim. Árásin í Ósló er kannski nærtækasta dæmið. Um allt land er nú verið að fagna hinsegin dögum og regnboga hátíðum og það er ekki bara í tómarúmi af því að okkur þykir gaman að fara í skrúðgöngur.

Þetta snýst um mannréttindabaráttur þetta snýst um að sofna aldrei á verðinum. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að innan stjórnsýslunnar og í öllum embættum taki fólk ábyrgð og tali varlega,“  segir Jódís í samtali við mbl.is.

Í höndum ríkissaksóknara að ákveða

„Þegar að einstaklingar eru komnir í þá stöðu að gegna embættum og hafa ákveðin völd þá er ábyrgð þeirra talsvert meiri en hjá almenningi þannig ég held að það þurfi bara að skoða það,“ segir Jódís, spurð hvort hún telji að Helgi Magnús hafi gerst brotlegur gagnvart siðareglum þegar hann lét ummælin falla. Þá segir hún það í höndum ríkissaksóknara að meta hvort svo hafi verið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert