Verðbólga hefur hækkað meira en gert var ráð fyrir og mælist hún nú 9,9%. Una Jónsdóttir, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, segir skammtímaspár benda til þess að verðbólgan nái hámarki í ágústmánuði í 10,3%. Það gæti þó breyst áður en formleg spá er gefin út.
„Þessi verðbólga er keyrð áfram af miklum hækkunum á húsnæðisverði. Við erum ekki farin að sjá rólegri takt eins og við vorum búin að gera ráð fyrir. Það virðist einhver bið eftir því,“ segir Una í samtali við mbl.is.
Hún segir að flugfargjöld hafi einnig hækkað talsvert milli mánaða, mun meira en gert var ráð fyrir, sem skýrist meðal annars af villu Hagstofunnar í síðasta mánuði, þar sem hækkunin var í raun meiri í júnímánuði en upprunalega birtist í gögnum Hagstofunnar.
„Þess vegna gerðum við ekki ráð fyrir svona mikilli hækkun núna en hún er mjög mikil.“ Eftirspurn eftir flugi sé mikil og hnökrar hafi verið í rekstri.
„Þannig að það eru truflanir á framboðshliðinni á meðan að eftirspurn er mjög mikil. Það skýrir það að verðið fari svona hátt upp.“
Spurð hvenær hún búist við að verðbólgan nái hámarki segir Una að einhver bið verði á því. „Verðbólgan er komin hærra en við áttum von á. Við gerum ráð fyrir að hún nái hámarki í ágúst, þá eitthvað yfir 10% en hjaðni síðan.“ Hún muni þó hjaðna frekar hægt.
„Eins og skammtímaspáin lítur út núna, þá spáum við því að verðbólgan nái hámarki í 10,3% í ágúst. Þó eiga fleiri gögn eftir að berast áður en við gefum út formlega spá í ágúst. Þetta er bara staðan eins og hún lítur út akkúrat núna.“
Fasteignamarkaðurinn spili þar lykilhlutverk. „Við tökum í raun alltaf stöðuna þegar við fáum ný gögn um horfur þar.
Enn sem komið er gefi þau gögn ekki endilega tilefni til bjartsýni.
Eru engin gögn sem benda til hins gagnstæða?
„Í rauninni ekki, ekki verðmælingar allavega. Við höfum aftur á móti heyrt af því að fasteignamarkaðurinn sé farinn að róast – það er að segja lengri sölutími á íbúðum og færri íbúðir sem eru að seljast.
Það ætti að leiða til aðeins hófstilltari þróunar en það hefur ekki komið fram í verðkönnunum enn sem komið er."