Hækkað um ríflega tvöföld lágmarkslaun

Formaður VR gagnrýnir launahækkun forstjóra Orkuveitunnar.
Formaður VR gagnrýnir launahækkun forstjóra Orkuveitunnar. Samsett mynd

„Mér finnst þetta algjörlega fáránlegt, þetta er náttúrlega bara hneyksli, það er ekkert hægt að lýsa þessu neitt öðruvísi,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, um launahækkun forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur (OR).

Laun forstjórans hækkuðu um 5,5% afturvirkt til 1. janúar, en tillaga þess efnis fékk nánast einróma samþykki á stjórnarfundi OR, þann 27. júní.

OR er í eigu Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar og Borgarbyggðar. Borgarstjóri þiggur rúmlega 2,3 milljónir í laun frá Reykjavíkurborg, en laun forstjóra OR hækkuðu upp í rúmar 3 milljónir í júní.

Upphaflega var greint frá því á mbl.is að laun forstjóra OR hefðu hækkað upp í rúmar 3,5 milljónir í júní. Sú upphæð er röng þar sem hún var reiknuð út frá launatölu ársreiknings OR frá árinu 2021 en samkvæmt upplýsingum frá OR endurspeglar sú tala ekki hver mánaðarlaunin eru, sökum þess að launatalan það árið tók mið af eingreiðslu sem forstjórinn fékk árið 2021. Hún nam þremur milljónum króna. Eingreiðslan olli því að launatalan var hærri í áðurnefndum ársreikningi heldur en margfeldi mánaðarlaunanna það árið.

„Þetta gefur náttúrlega bara tóninn, og ákveðið merki um það hvernig við ætlum að semja inn í næstu kjarasamninga. Við ætlum ekki að biðja um eitthvað minna heldur en efsta lagið í samfélaginu er að taka sér, það er alveg á hreinu.“

„Ekkert annað en spilling“

„Það má reikna með því að stjórnin muni þá væntanlega hækka launin hans á næsta ári um tíu prósent afturvirkt, vegna þess að þarna er bara orðin viðtekin venja. Forstjóri OR er að hækka þarna á tveggja ára tímabili um ríflega tvöföld lágmarkslaun,“ segir Ragnar.

„Við erum að tala fyrir bættum kjörum almennings í landinu og fáum þau skilaboð að sýna ábyrgð og hófsemi, frá Seðlabankanum og stjórnvöldum. Hvernig þetta talar inn í okkar starf og þá gagnrýni sem við fáum, án þess að fólk hafi hreinlega kynnt sér okkar kröfur.

Þetta stefnir bara í að fólkið okkar og fólkið í landinu muni rísa upp gegn þessari spillingu, þetta er ekkert annað en spilling.“

Munu fylgja kröfum og vilja fólksins

Bendir Ragnar á að alþingis- og sveitarstjórnarkosningar séu nýafstaðnar og að fólk geti lítið gert annað en að rísa upp gegn kjarasamningum sínum í gegnum sveitarfélögin.

„Við munum sjá til þess að svo verði, við munum fylgja algjörlega kröfum og vilja fólksins þegar kemur að kjarasamningum og látum ekki plata okkur eins og kjósendur gera stundum í kosningum, þegar öllu er lofað og allt síðan svikið jafnharðan.

Það er ennþá mikið sem stendur út af borðinu síðan lífskjarasamningarnir voru gerðir, þannig að stjórnvöld eiga ekkert rosalega greiða leið inn í einhvern stóran samkomulagspakka, með allt meira og minna svikið frá síðustu samningum,“ segir hann.

„Stjórnvöld munu ekki komast upp með að geta komið bara eins og ekkert hafi í skorist að borðinu og lofað öllu fögru vegna þess að þau eru rúin trausti gagnvart verkalýðshreyfingunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka