Hélt hann mætti taka ilmvötnin

Maður stal þremur ilmvatnsglösum úr verslun í hverfi 103 í gær og var þjófnaðurinn tilkynntur til lögreglu. Segir í dagbók lögreglu að maðurinn hafi haldið að hann mætti taka glösin þar sem um prufur væri að ræða. Hann sagði að það mætti í heimalandi hans.

Tilkynnt var um innbrot í geymslu í fjölbýlishúsi í hverfi 221, búið var að fjarlægja læsingu af hurðinni og stela verkfærum ásamt fleiru.

Klukkan hálftólf í gærkvöldi var tilkynnt um umferðarslys í Garðabæ en þar varð árekstur milli bifreiðar og létts bifhjóls. Ökumaður bifhjólsins, sem er 14 ára gamall, var ekki með hjálm, kvartaði um höfuðverk og var fluttur með sjúkrabifreið til aðhlynningar á bráðadeild.

Þá var ölvaður maður handtekinn í hverfi 112 í nótt. Maðurinn hafði verið að ónáða fólk og fór ekki að fyrirmælum lögreglu. Hann var vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert