Jafnast á við íbúafjölda Seltjarnarness

Íbúum landsins hefur fjölgað um ríflega 4.700 frá áramótum, eða …
Íbúum landsins hefur fjölgað um ríflega 4.700 frá áramótum, eða á við íbúafjölda Seltjarnarness mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Íbúar landsins urðu í fyrsta sinn rúmlega 380 þúsund í sumarbyrjun. Þeim hefur fjölgað um ríflega 4.700 frá áramótum, eða á við íbúafjölda Seltjarnarness, og eru íbúar landsins nú um 381 þúsund.

Þörf er á aðfluttu vinnuafli og gæti það, ásamt náttúrulegri íbúafjölgun, haft í för með sér að íbúafjöldinn verði kominn í 385 þúsund um áramótin.

Nærri íbúafjöldi Hafnarfjarðar

Gangi það eftir yrði það fjölgun um 29 þúsund íbúa frá desemberbyrjun 2018 sem jafnast næstum á við íbúafjölda Hafnarfjarðar.

Flestir innflytjendur á Íslandi koma frá Evrópu. Hagþróun í Evrópu, ekki síst á evrusvæðinu, gæti því haft áhrif á aðflutninginn.

Það gæti því ýtt undir aðflutning til landsins að horfur á evrusvæðinu á síðari hluta árs hafa versnað og að staða efnahagsmála er betri hér.

Christine Lagarde, bankastjóri evrópska seðlabankans, ræddi efnahagshorfurnar er hún gerði grein fyrir 0,5% vaxtahækkun bankans, þeirri fyrstu í ellefu ár, í gær.

Lagarde gaf til kynna að vextir hækki meira í haust en hún sagði hækkandi orkuverð, í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu, hafa ásamt öðru ýtt undir verðbólgu í álfunni.

Þá boðaði hún stuðningsaðgerðir til handa þeim ríkjum evrusvæðisins sem höllustum fæti standa en Ítalía, eitt stærsta hagkerfi álfunnar, glímir nú við stjórnarkreppu og íþyngjandi ríkisskuldir. 

Nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert