Raðgreining tilraunastofu HÍ að Keldum hefur staðfest að kórónuveiran Bovine BovCoV sé orsök landlægrar veiruskitu í kúm. Þetta segir á vef MAST.
Þar segir að síðla vetrar og í vor hafi veiruskita gengið á kúabúum víða um land, aðallega á Norðurlandi. Lengi hafi verið grunur um að um væri að ræða nautgripakórónuveiru en nú hafi það verið staðfest með sýni frá norðurlandi.
Á vef MAST segir að veiruskita sé bráðsmitandi sjúkdómur sem finna megi um allan heim.
„Mótefnamælingar hafa sýnt að sýking er mjög algeng í mjólkurkúm hérlendis og blossar veikin upp á mismunandi svæðum á landinu nokkuð reglulega,“ segir á vef Mast. Sjúkdómurinn smitist með saur og slími frá nösum og breiðist hratt út innan hjarða.
Því sé mjög mikilvægt að bændur haldi uppi öflugum sóttvörnum á búum sínum og dragi úr flutningi gripa og tækja milli búa auk þess sem lágmarka skuli umgengni utanaðkomandi fólks.
„Afleiðingar sjúkdómsins geta verið alvarlegar og langvarandi þar sem sjúkdómurinn skerðir ónæmiskerfi kúnna þannig að þær verða viðkvæmari fyrir öðrum sjúkdómum, m.a. júgurbólgu og öðrum bakteríusýkingum.“