Launabil innan borgarinnar „alls ekki eðlilegt“

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, segir tímabært að ræða hvað sé eðlilegt launabil á milli hæstu og lægstu launa innan borgarinnar og innan fyrirtækja í eigu hennar.

„Það vekur upp mikla reiði að sjá að forstjórar eru að fá launahækkun að því er virðist bara fyrirhafnarlaust, á meðan lægst launaða starfsfólkið í borginni þarf að hafa mjög mikið fyrir því að fá launahækkun og þarf jafnvel að leggja niður störf sín til þess að fá þau metin að verðleikum,“ segir Sanna í samtali við mbl.is.

Stingur fyrir mjög marga

„Þetta er alls ekki eðlilegt bil, sérstaklega þegar það eru manneskjur úti í samfélaginu sem eiga erfitt með að láta enda ná saman. Það er fátækt og það er stéttaskipting.

Að sjá síðan eitthvað svona, og sérstaklega í ljósi ástandsins sem við erum í núna, þá stingur þetta fyrir mjög marga, að þetta sé hægt en það sé ekki hægt að koma til móts við fátækar fjölskyldur.“

Telur Sanna að Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög eigi að setja skýrar línur í þessum málum. „Þetta er fyrirtæki í opinberri eigu, þannig að maður skilur ekki hvaða ástæða er fyrir þessu,“ bætir hún við.

„Hann er á gríðarlega háum launum til þess að byrja með, þannig að það er bara fáránlegt að vera að hækka laun sem eru svona há, sérstaklega núna þegar lægstu launin hjá Reykjavíkurborg eru svona lág.“

„Í höfrungahlaupi hver við annan“

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokksins lögðu fram bókun á fundi borgarráðs í gær þar sem launahækkun forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur er gagnrýnd. „Á meðan að manneskjur á lágmarkslaunum og undir því eiga ekki fyrir mat út mánuðinn, er verið að hækka laun forstjóra sem er á ofurlaunum,“ segir meðal annars í bókuninni.

Þá lagði áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins einnig fram bókun á sama fundi þar sem umrædd launahækkun er gagnrýnd með svohljóðandi hætti:

„Flokki fólksins finnst þessi laun vera út úr öllu korti. Allir vita hvaða ástand ríkir nú í samfélaginu. Verðbólga hefur ekki verið eins há síðan fyrir hrun. Þurfa ekki forstjórar að axla einhverja ábyrgð eða eru þeir undanþegnir ábyrgð sem öðrum er gert að axla?

Það er ekkert lögmál að forstjórar eigi að vera á ofurlaunum. Rökin fyrir svo háum launum forstjóra eru oft á þá leið að þeir standi sig svo vel í starfi. Þetta eru undarleg rök, eins og það sé ekki beinlínis sjálfgefið að forstjóri standi sig vel. Forstjórar orkufyrirtækja eru sárafáir en þeir eru í höfrungahlaupi hver við annan og hækka á víxl í launum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert