Fiskistofa hefur, með tilliti til fiskgengdar í Þjórsá, fyrir sitt leyti samþykkt byggingu Hvammsvirkjunar. Stofnunin, sem hefur stjórnsýslu lax- og silungsveiði með höndum, setur framkvæmdinni þó ýmis skilyrði. Í erindi þar sem jáyrði er rökstutt segir að bygging fiskgengs stiga í Þjórsá, upp fyrir stíflumannvirki við bæinn Minni-Núp, sé nauðsynleg mótvægisaðgerð. Mikilvæg búsvæði laxfiska séu ofan við fyrirhugaða stíflu og haga þurfi framkvæmdum samkvæmt því.
Leyfi Fiskistofu er raunar undirorpið því að Landsvirkjun reisi stigann, jafnhliða virkjuninni sjálfri. Þá vill Fiskistofa að fyrstu tíu starfsár Hvammsvirkjunar verði vaktað í hvaða mæli fiskur gangi um stigann. Upplýsingar sem þannig fást geti nýst ef lagfæra þarf stigann í laxanna þágu. Jafnframt þarf Landsvirkjun að vakta botndýralíf á áhrifasvæði virkjunarinnar í Þjórsá og hvernig svonefnd seiðafleyta, sem setja þarf upp, muni virka.
Hugsanlegt er svo að Orkustofnun setji líka skilyrði í virkjunarleyfi, þar sem lágmarksáhrif á umhverfi verða leiðarljós. Fjölmargar stofnanir, hver með sitt sérsvið, þurfa þannig að fjalla um mál sem þessi áður en framkvæmdir geta hafist.
Nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.