Margt fólk var á Egilsstöðum í gær en að sögn sjónarvotts voru öll bílastæði við Nettó yfirfull af ferðamönnum sem voru flestir af erlendum uppruna. María Hjálmarsdóttir, verkefnisstjóri Austurbrú, segir að mikið sé að gera á Egilsstöðum um þessar mundir. Öll hótel séu uppbókuð og tjaldsvæðin að mestu leyti full.
„Eftir Covid-19 þá hafa bókanir gengið mjög vel, vonum framar eiginlega,“ segir hún í samtali við mbl.is.
Færra sé um íslenska ferðamenn miðað við fyrri ár þegar faraldurinn gekk yfir og að meira sé um erlenda ferðamenn. Aðspurð segir hún að mögulega séu Franskir dagar á Fáskrúðsfirði og Bræðslan á Borgarfirði-eystra að spila inn í þann mikla ferðamannastraum sem myndaðist á Egilstöðum í gær.
Að sögn hennar eru fleiri ferðamenn sem heimsækja Austurland, og þá sérstaklega Egilsstaði, yfir sumarið og að hún hafi grun um að ferðamenn dvelji almennt lengur á Austurlandi á ferðalögum sínum um Ísland.
„Maður finnur fyrir því að það er mikil og hröð aukning sem er auðvitað líka allskonar áskoranir, t.d. með starfsmannamál og húsnæði fyrir starfsmenn. En ég hrósa fyrirtækjum hérna fyrir það hversu úrræðagóð þau hafa verið og hversu fljót þau eru að takast á við þessar áskoranir,“ segir hún og bætir við að það sé gaman að sjá Egilsstaði vaxa sem einskonar „mini-borg“.