„Ég hef séð umrædda færslu og hún svo sem slær mig illa,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra um Facebook-færslu vararíkissaksóknara þar sem hann segir hælisleitendur ljúga og spyr hvort skortur sé á samkynhneigðum karlmönnum á Íslandi.
„Ákærendum og öllum öðrum opinberum starfsmönnum ber að rækja starf sitt af alúð og samviskusemi í hvívetna og forðast að hafa nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem er honum til vanvirðu eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein sem fólk vinnur við,“ segir Jón við mbl.is um málið og vísar í lög um skyldur opinberra starfsmanna.
Þá bendir hann á að ríkissaksóknari hafi sett siðareglur sem gilda um ákærendur í landinu.
„Þar kemur fram meðal annars að ákærendur skuli gæta þess að hafa sómasamlega framkomu og öll framganga sé til þess fallin að rýra ekki traust ákæruvaldsins. Það er mikilvægt að mínu mati að ákærendur standi undir virðingu og trausti almennings og bera því mikla ábyrgð og fara með lykilhlutverk í okkar refsivörslukerfi,“ segir Jón.
„Flestir hælisleitendur koma í von um meiri pening og betra líf. Hver lýgur sér ekki til bjargar? Þar fyrir utan er einhver skortur á hommum á Íslandi?“ skrifaði Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari í færslu á Facebook.
Er þessi framkoma í takt við siðareglur og lög sem þú vísar í?
„Ég held að það geti hver dæmt um það sjálfur sem les það,“ segir Jón.
Helgi Magnús var skipaður í stöðuna árið 2011 af Ögmundi Jónassyni, þáverandi innanríkisráðherra.
Jón segir að ríkissaksóknari, Sigríður J. Friðjónsdóttir, fari með stjórnunarlega ábyrgð í málinu og hún sé meðvituð um það.
„Það er ákveðinn aðskilnaður á milli ákæruvalds og framkvæmdavalds,“ segir Jón.
Ekki náðist í Sigríði við vinnslu fréttarinnar.