Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra fagnar því að Íslandi hafi verið raðað í fyrsta flokk yfir varnir gegn mansali af bandarískum stjórnvöldum á ný og segir mikilvægt að halda áfram á sömu braut.
„Þetta endurspeglar þær áherslur sem hafa verið lagðar á þessa hlið mála núna í nokkurn tíma og það hefur tekist vel og ýmsar aðgerðir sem hefur verið gripið til,“ segir Jón í samtali við mbl.is.
„Það má segja að mál sem ég til að mynda lagði fram í vetur og fékk samþykkt á þingi í vor um bætta réttarstöðu brotaþola og annað, það er auðvitað allt sem tengist þessu.
Síðan eru auknar áherslur sem við erum að leggja á skipulagða brotastarfsemi, varnir gegn því og slíkt, sem mun líta dagsins ljós í haust, þetta er allt svona hluti af sömu myndinni og þungt áherslumál.“
Ísland hafði verið í fyrsta flokki frá árinu 2001 í árlegri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins, en féll í annan flokk árið 2017.
„Aukið fjármagn hefur verið veitt, það var skipaður starfshópur með mörgum aðilum sem að þessu koma og góður árangur hefur náðst í kjölfarið.
Það hefur einnig skilað því að það var ákært og sakfellt fyrir mansal hér á landi í fyrsta skipti í tólf ár og borin hafa verið kennsl á fleiri þolendur mansals og verið að veita þeim viðeigandi aðstoð,“ segir Jón, spurður hvaða breytingar hafi átt sér stað.
„Sérstök upplýsingagátt um mansal var opnuð á vef Neyðarlínunnar, við höfum svo staðið fyrir kynningu með gerð fræðslumyndbanda og öðru, þannig að víðtækari ráðstafanir hafa verið gerðar sem eru að skila þessum ánægjulega árangri í dag,“ bætir hann við.
„Við þurfum að halda áfram á þessari vegferð sem við erum á, það má nefna breytingar á lögum sem tengjast þessu beint og óbeint, af því að oft er þetta hluti af skipulagðri brotastarfsemi og þarf að meðhöndla sem slíkt. Þar er ég til dæmis með frumvarp í haust,“ segir Jón.
„Um leið og maður fagnar þessu þá erum við áfram í þessari vinnu að gera góða hluti enn betri.“