Skólastarf Barnaskólans í Reykjavík og leikskólans Öskju flyst tímabundið í Skógarhlíð og hefst skólastarf þar að loknum sumarleyfum. Foreldrar barna í Öskju fá undanþágu á uppsagnarfresti á samningi við aðra leikskóla borgarinnar, kjósi þeir að börnin haldi áfram dvöl sinni þar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Áætlað er að skólastarfið verði í Skógarhlíð fram til haustsins 2023, þegar flutt verður í framtíðarskólahúsnæði, en á fundi borgarráðs í gær var samþykkt nýtt rekstrarleyfi fyrir Öskju að Skógarhlið 6 sem og aukafjárveiting fyrir framkvæmdir við breytingar á húsnæðinu við Skógarhlíð, þangað sem starfsemi leikskólans og Barnaskólans í Reykjavík flytur í ágúst.
Í tilkynningunni segir að margir foreldrar hafi sótt um og fengið pláss fyrir börn sín í borgarreknum leikskólum, vegna þeirrar óvissu sem var uppi með húsnæðismál Öskju.
Til að tryggja að börnin geti nú haldið áfram dvöl hjá Öskju, samþykkti borgarráð í gær undanþágu frá eins mánaðar uppsagnarfresti á dvalarsamningi. Mælst er til að foreldrar sem voru áður með börn í Öskju og hafa skrifað undir dvalarsamninga við aðra leikskóla, segi þeim upp sem allra fyrst eða eigi síðar en 2. ágúst næstkomandi, kjósi þeir að vera áfram með börn sín í leikskólanum Öskju.