„Þetta er það sem við óttuðumst og höfum varað við því að við gætum farið að sjá tveggja stafa tölur,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, um verðbólguna sem nú er komin í 9,9%.
Ragnar segir ástandið vera að hluta til afleiðing ákveðins aðgerðaleysis stjórnvalda.
„Við sendum neyðarkall á bæði Seðlabankann og ríkisstjórnina um aðgerðir til að sporna til dæmis við verðlagshækkunum. Það gerðum við bæði síðasta haust og svo snemma árs en á okkur var ekki hlustað.
Það hefði verið hægt að vinna gegn þessu með ákveðnum hætti, bæði styrkingu krónunnar og sömuleiðis að lækka álögur á nauðsynjavörur og eldsneyti, en þetta er veganestið sem við höfum inn í næstu kjarasamninga og þurfum að taka þetta með í reikninginn í okkar kröfugerð.“
„Í okkar kröfugerð er skýr krafa frá okkar félagsmönnum, við bæði verjum og aukum kaupmátt, þannig að það hlýtur að gefa auga leið að til þess að það verði hægt verðum við að mæta þeirri kaupmáttarýrnun sem hefur orðið út af þessari miklu verðbólgu.“
Ragnar lýsir ástandinu sem dapurlegu og segir verðbólguna að stórum hluta heimatilbúna vegna áratuga aðgerðaleysi hvað varðar húsnæðismarkaðinn, sem og sofandahátt gagnvart fjölmörgum leiðum til að sporna við miklum verðlagshækkunum sem flæði yfir almenning.
„Svo koma stýrivaxtahækkanir ofan á það og ég held að allir, og meira að segja þeir sem hafa gagnrýnt verkalýðshreyfinguna hvað harkalegast, hafi tekið undir okkar gagnrýni að stýrivaxtahækkanir í þeim mæli sem Seðlabankinn hefur verið að fara í, gerir ekkert nema gera ástandið enn verra vegna þess að fyrirtækin skulda það mikið.
Þetta eykur á verðlagshækkanir frekar en hitt og hefur ekki haft nein áhrif á fasteignamarkaðinn, það hefði verið hægt að fara í allt aðrar aðgerðir, þannig að Seðlabankinn heldur svolítið bara áfram að hella olíu á eldinn, því miður.“
„Okkar bíður alveg ærið verkefni í haust og það verður bara stærra og stærra, má segja,“ bætir Ragnar við.