Banaslys á Akrafjallsvegi

mbl.is

Banaslys varð nærri Hvalfjarðargöngunum um kvöldmatarleytið í gær. 

Ökumaður missti stjórn á bifreið sinni á „ógnarhraða“ samkvæmt tilkynningu frá Lögreglunni á Vesturlandi. Fór bifreiðin nokkrar veltur og virðist sem ökumaðurinn hafi kastast út úr bifreiðinni. 

Lögregluþjónar höfðu komið auga á bifreiðina skömmu áður og hugðust freista þess að stöðva ökumanninn á Akrafjallsvegi og kanna ástand hans. Hafði lögreglunni verið gert viðvart um einkennilegt aksturslag og virtist bílinn rása á veginum. 

Lögreglan var nokkuð á eftir bifreiðinni þegar slysið varð en samkvæmt sjónarvottum hafði ökumaðurinn þá ekið fram úr strætisvagni og bifreiðin oltið í framhaldinu. Nokkur vitni voru því væntanlega að slysinu. 

Endurlífgun lögreglu og sjúkraliðs sem kom á vettvang bar ekki árangur segir jafnframt í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert