Erfitt að hafa uppi á þrjótunum

Lögreglunni hefur ekki tekist að hafa uppi á þrjótunum sem …
Lögreglunni hefur ekki tekist að hafa uppi á þrjótunum sem standa að baki dreifingu svikapóstanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svikapóstar sem hafa verið sendir út, merktir lögreglu, dómsmálaráðuneyti og nafni ríkislögreglustjóra, hafa valdið einstaklingum miklu uppnámi en tölvupóstunum hefur fyrst og fremst verið beint að fullorðnu fólki. Þetta segir Rannveig Þórisdóttir, sviðsstjóri ríkislögreglustjóra. 

Málið hefur verið í skoðun hjá embætti ríkislögreglustjóra en erfiðlega hefur gengið að hafa uppi á þrjótunum sem standa að baki þessum sendingum þar sem tölvupóstarnir fara í gegnum erlenda miðlara og eru þeir enn í dreifingu.

Ríkislögreglustjóri varaði fyrst við svikatölvupóstunum þann 13. júlí og vakti þá sérstaka athygli á því skilaboðin væru ekki á vegum embættisins. Var fólk þá varað við því að ýta á hlekki eða opna viðhengi og alls ekki gefa upp kortaupplýsingar eða viðkvæmar persónuupplýsingar. Þá var einnig mælt með því að tilkynna póst af þessum toga sem ruslpóst í tölvupóstforritum.

Skjáskot af póstinum sem varað er við.
Skjáskot af póstinum sem varað er við.

Beita tækjum og tólum

„Það er alltaf þannig með svikapósta að það er rosalega erfitt að stöðva þetta. Við vitum ekki hver er að þessu en þetta mál, eins og öll önnur, erum við enn að skoða og leita leiða til að stoppa. Við erum búin að vera að beita þeim tækjum og tólum sem við getum en þetta er enn í dreifingu því miður,“ segir Rannveig í samtali við mbl.is.

„Þá virðist vera að þessum pósti sé beint að fullorðnu fólki – eða einstaklingum í eldri kantinum, sem taka þessu mögulega meira alvarlega og bregður meira.“

Mögulega hafi einhver borgað

Ekki liggur fyrir hvað nákvæmlega markmiðið með svikapóstunum er. Að sögn Rannveigar virðist það þó, að minnsta kosti að hluta, ganga út á að nappa fólk til að greiða pening. Eitthvað annað gæti þó vakið fyrir þessum óprúttnu aðilum.

„Mögulega hefur einhver borgað. Ástæðan fyrir því að fólk er að senda þessa pósta er að það eru alltaf einhverjir sem falla fyrir þessu.“

Aðspurð segir Rannveig einstaklinga hafa sett sig í samband við embættið eftir að hafa fengið svikapóstinn enda hafi þeim eðlilega verið brugðið. Þá ekki síður í ljósi þess að afar háttsett manneskja er skrifuð fyrir póstinum sem, að sögn Rannveigar, gæti gert það að verkum að fólk taki þessum skilaboðum mun alvarlegar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert