Fiðlarinn á fjallinu

Álfheiði H. Hafsteinsdóttur er ævintýramennska í blóð borin.
Álfheiði H. Hafsteinsdóttur er ævintýramennska í blóð borin. Mbl.is/Hákon Pálsson

Álfheiður H. Hafsteinsdóttir er haldin ævintýraþrá og er staðráðin í að láta ekki lífið framhjá sér fara. Hún vinnur hjá fjárfestingarsjóði í New York en notar frítíma sinn til að ferðast, klífa fjöll, ganga yfir jökla, hlaupa maraþon og þar fram eftir götunum. Þá er hún með einleikarapróf og spilar á fiðlu í tveimur hljómsveitum vestra sér til ánægju og yndisauka. 

Fjallabakteríuna hefur Álfheiður beint frá foreldrum sínum, Hafsteini Sæmundssyni og Þórdísi Kolbeinsdóttur, en þau voru dugleg að fara með hana og bræður hennar í útilegur í æsku og þá helst upp á hálendið. „Við systkinin skildum að vísu ekkert í því á þeim tíma hvers vegna við vorum ekki á tjaldstæðinu með öllum hinum,“ rifjar hún upp hlæjandi.

Bakterían braust að vísu ekki fram alveg strax en eftir að Álfheiður hafði starfað um tíma á Manhattan, „langt fram á nótt uppi í einhverjum turni,“ eins og hún orðar það, fór náttúran að kalla hærra og hærra á hana. „Allar götur síðan hef ég leitað mikið eftir því að vera í náttúrunni. Er það ekki bara Íslendingurinn í manni?“

Álfheiður hitti fyrir mörgæsir í Suður-Georgíu.
Álfheiður hitti fyrir mörgæsir í Suður-Georgíu.


Hún byrjaði á að ferðast til „týndu borgar Inkanna“, Machu Picchu, sem stendur 2.430 metra yfir sjávarmáli á fjallsbrún yfir Urubambadalnum í Perú. „Ætli það hafi ekki verið upphafið á þessu fjallabrölti,“ segir hún.

Á þessum tíma voru foreldrar hennar nýkomnir niður af Hvannadalshnjúk og hvöttu hana til að fara þar upp við tækifæri. Hún lét ekki segja sér það tvisvar. „Eftir það var ég sannfærð um að ég yrði að eyða meiri tíma uppi á jöklum. Ég er alveg dugleg að fara í göngur frá New York en útsýnið er oft takmarkað í skóglendinu. Stundum þarf að ganga í marga klukkutíma til að komast yfir trélínuna.“

Varð að fara yfir Grænlandsjökul

Má hún þá frekar biðja um jöklana. „Ég fór að lesa mér til um heimskautafarana og sá í hendi mér að ég yrði að fara yfir Grænlandsjökul á gönguskíðum, sem ég þurfti reyndar að læra á,“ segir Álfheiður. Hún ferðast yfirleitt með vinum sem eru einnig vanir fjallgöngum og útivist eða, fyrir stærri leiðangra, með skipulögðum hópum undir eftirliti leiðsögumanna.
Vandamálið var hins vegar það að Bandaríkjamenn eru hvergi nærri eins orlofsglaðir og við hér á hjara veraldar. „Þar þykja tíu dagar langt frí,“ segir Álfheiður sem vann á þessum tíma hjá fjárfestingarbanka í New York. „Ég ákvað því að segja upp en lendingin varð sú að ég fékk ársleyfi frá störfum. Það notaði ég til að skíða yfir Grænlandsjökul, fara í undirbúningsferðir á Íslandi og í Noregi, klífa Kilimanjaro og ferðast til Nepal og Nýja-Sjálands.“

Sumsé bara hafa það huggulegt í fríinu.

Álfheiður ásamt hundi sínum í Monument Valley Navajo Tribal Park …
Álfheiður ásamt hundi sínum í Monument Valley Navajo Tribal Park á ferð þeirra um Bandaríkin.


Hún notaði leyfið einnig til að fara á klifurnámskeið og afla sér þekkingar til að geta ferðast sjálfstætt á fjöllum. Er mjög opin fyrir því að læra nýja hluti og þá af fólki sem vel kann til verka.

Að árinu loknu sneri hún aftur til New York en ákvað að breyta til og tók til starfa hjá fjárfestingarsjóði þar sem hún sinnti verkefnum á jafn ólíkum stöðum og West Virginia, Noregi og Indlandi. „Fjármálaheimurinn í New York minnir um margt á hamsturshjól. Fólk er í stöðugu kapphlaupi við sjálft sig og aðra og stöðuhækkanir og titlar skipta öllu máli.“

Áður en hún lagði í ferðalögin, horfði fólk skilningsvana á Álfheiði og sagði: „En þú endar ári á eftir?!“

Laus milli verkefna

Í dag er hún í starfi sem á mun betur við hana, hjá fjárfestingarsjóðnum Capitol Investment Corp. í New York.

Að sögn Álfheiðar þarf að grípa tækifærin. „Starfið hjá sjóðnum er þannig að ég get verið bundin við skrifborðið í sex mánuði meðan ég vinn að tilteknu verkefni. Svo klárast það og þá losnar kannski mánuður áður en næsta verkefni tekur við. Þá sæti ég lagi og leggst í ferðalög og geri eitthvað skemmtilegt.“

Meðal annarra ævintýraferða má nefna að Álfheiður hefur gengið á Aconcagua í Argentínu, hæsta fjall Ameríku, 6.961 metra hátt, og farið í kjölfar Endurance og fótspor Ernests Shackletons til Suður-Georgíu. Það gerði hún á aldarafmæli þess fræga björgunarleiðangurs, 2016.

Með einleikarapróf á fiðlu

Álfheiður er einnig með einleikarapróf á fiðlu. Hún hafði ekki skýra hugmynd um framhaldið eftir stúdentspróf og því varð úr að hún fór í BA-nám, í bæði tónlist og stjórnmálafræði, við Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Að því kom svo að hún tók praktíska ákvörðun og fór í MBA-nám. Réðist svo til starfa hjá fyrrnefndum fjárfestingarbanka í New York. „Ég vann allan sólarhringinn, svo að segja, til að byrja með og lagði fiðluna alveg frá mér; spilaði svo til ekkert í tíu ár.“

Álfheiður á tindi Aconcagua í Argentínu.
Álfheiður á tindi Aconcagua í Argentínu.


Síðan ökklabrotnaði hún og gat ekki stundað útivist um tíma. Þá hafði gamall félagi úr Yale, sem leikur á píanó, samband og fékk hana til að spila með sér. „Það kom mér aftur af stað.“

– Þannig að ökklabrotið var í þeim skilningi blessun?

„Það má alveg líta þannig á það. Annars er maður aldrei alveg hættur að spila, held ég. Tónlistin togar alltaf í mann og ætli ég hefði ekki fundið leið inn í hana á ný, óháð þessu óhappi.“

Að sögn Álfheiðar er margt gott tónlistarfólk í New York sem ekki vinnur við tónlist og áður en hún vissi af var hún komin á fulla ferð með fiðluna. „Það er alltaf gaman að finna fólk sem vill spila krefjandi og skemmtilega tónlist og það hefur mér tekist,“ segir Álfheiður, sem bæði er félagi í sinfóníuhljómsveitin Park Avenue Chamber Symphony og strengjasveitinni Mimosa Chamber Ensemble, auk þess að spila reglulega strengjakvartetta með meðlimum úr þessum hópum.

Nánar er rætt við Álfheiði í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert