Hefur ekki talað við eina manneskju sem er sátt

Í kærunni segir að Vatnsendahvarfið sé gróðursæl náttúruperla og mikið …
Í kærunni segir að Vatnsendahvarfið sé gróðursæl náttúruperla og mikið nýtt útivistar- og útsýnissvæði íbúa nágrennisins. Ljósmynd/Helga Kristín Gunnarsdóttir

Hollvinasamtök Elliðaárdalsins, Vinir Kópavogs og yfir 50 íbúar skrifuðu undir kæru sem var í gær send til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem krafist er að deiliskipulag 3. kafla Arnarnesvegar og Elliðaárdals verði fellt úr gildi.

Helga Kristín Gunnarsdóttir, talsmaður Vina Vatnsendahvarfs, segist hafa fundið mikinn meðbyr með íbúum sem búa í grennd við veginn og að undirskriftirnar séu bæði frá einstaklingum sem búa í návígi við veginn Reykjavíkurmegin og Kópavogsmegin.

„Það er ekki ein manneskja sem ég hef átt samtal við sem er sátt við útfærslu vegarins eins og hún stendur í dag,“ segir Helga Kristín.

Umhverfismatið frá 2003

Í kærunni er vísað til þess að umhverfismatið sem framkvæmdin byggir á sé frá árinu 2003 en þá hafi verið talið að vegalagningin myndi hafa óveruleg áhrif á umhverfi, útivist og hljóðvist. Kærendur telji ólíkt úrskurði umhverfismatsins að framkvæmdin muni hafa með sér veruleg og neikvæð áhrif á lífríki, umhverfi og útivist. Þá samræmist framkvæmdin heldur ekki markmiðum Samgöngusáttmálans.

Þá segir einnig að Vatnsendahvarfið sé gróðursæl náttúruperla og mikið nýtt útivistar- og útsýnissvæði íbúa nágrennisins. Fyrirhugaður 3. Kafli Arnarnesvegar muni koma til með að skera Vatnsendahverfið í tvennt og breyta ásýnd þess og notagildi til hins verra til frambúðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert