Röskun vegna vegastokks

Þröngt er víða milli götunnar og húsa austan megin. Sum …
Þröngt er víða milli götunnar og húsa austan megin. Sum hús ná að Sæbraut. Húsið t.v. er Dugguvogur 42, en þar eru skráð 20 fyrirtæki. mbl.is/sisi

Framkvæmdir við fyrirhugaðan Sæbrautarstokk munu hafa í för með sér umtalsverða röskun hjá fyrirtækjum sem eru með starfsemi í húsum austan megin við Sæbraut.

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Vegagerðin í samvinnu við Reykjavíkurborg og Veitur áform um að leggja Reykjanesbraut/Sæbraut (41) í stokk frá Vesturlandsvegi í norðurátt til móts við Húsasmiðjuna, alls rúmlega einn kílómetra. Vegurinn verður með tveimur akreinum í hvora akstursstefnu í tvískiptum stokk með flóttarými á milli hluta. Verkefnið er hluti samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga. Áætlað er að framkvæmdin taki tvö ár og er vonast til að stokkurinn verði tilbúinn til notkunar fyrri hluta árs 2027.

Vegna fyrirhugaðra framkvæmda sendi Vegagerðin umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar bréf hinn 1. júlí síðastliðinn. Þar segir m.a.: „Ljóst er að vegna framkvæmdanna verður þörf á að leggja bráðabirgðaveg, samsíða Sæbraut, sem þjónar almennri umferð á meðan á framkvæmdum stendur. Á þessu stigi er helst horft til þess að bráðabirgðavegurinn verði lagður austan megin við fyrirhugaðan stokk, á svæðinu milli núverandi Sæbrautar og Dugguvogs.“

Kort/mbl.is

Ennfremur segir í bréfinu að á þessu svæði séu nú hús og í þeim fyrirtæki í fullum rekstri. Lóðirnar eru; Skektuvogur 1, Súðarvogur 2E-F, Dugguvogur 42, Dugguvogur 44, Dugguvogur 46, Dugguvogur 48-50, Dugguvogur 52, Knarrarvogur 2 og Knarrarvogur 4. Í sumum húsanna er engin starfsemi en í öðrum eru skráð allt að 20 fyrirtæki.

Leita þarf til lóðarhafa

„Vegna þess hvað undirbúningur verksins er kominn stutt eru enn margar breytur óljósar en framkvæmdaraðilar hafa boðið út vinnu við mat á umhverfisáhrifum og forhönnun stokksins,“ segir í bréfi Vegagerðarinnar. Einnig sé að hefjast vinna við deiliskipulag svæðisins hjá Reykjavíkurborg.

Samkvæmt áætlun er gert ráð fyrir að framkvæmdum við stokk …
Samkvæmt áætlun er gert ráð fyrir að framkvæmdum við stokk verði lokið árið 2027. mbl.is/sisi

„Vegagerðin hefur þess vegna ákveðið að senda þetta erindi til Reykjavíkurborgar þar sem farið er fram á að Reykjavíkurborg leiði saman lóðarhafa og Vegagerðina ef einhverjar óskir koma fram um skipulags- og/eða leyfismál á svæðinu, t.d. um útgáfu byggingarleyfa, gerð nýrra lóðarleigusamninga, rekstrarleyfa o.þ.h. Farið er fram á að erindi lóðarhafa varðandi skipulags- og leyfismál verði send Vegagerðinni til umfjöllunar og umsagnar þ.a. ekki verði árekstrar við væntanlegar framkvæmdir.“

Jafnframt vekur Vegagerðin athygli á að huga þurfi tímanlega að skipulagsmálum og öðrum nauðsynlegum ráðstöfunum vegna aðliggjandi eigna vestan megin við fyrirhugaðan stokk, bæði á framkvæmdatíma og rekstrartíma Sæbrautarstokks. Einkum er bent á fasteignirnar Barðavog 40, 42 og 44 og Snekkjuvog 23.

Fréttina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu en hún birtist fyrst á fimmtudaginn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka