Gengið í 93 póstnúmerum en vantar eitt

Áslaug Björt Guðmundardóttir.
Áslaug Björt Guðmundardóttir. Ljósmynd/Aðsend

Áslaug Björt Guðmund­ar­dótt­ir hefur síðustu tvö árin fengið sér göngu­túr í öll­um þétt­býl­is­póst­núm­er­um lands­ins nema einu, 900 Vest­manna­eyj­um, sem hún stefn­ir á að klára í sum­ar. Áslaug er þó eng­inn göngugarp­ur, frekar rölt­ari sem fann sér skemmti­legt verk­efni.

„Þetta byrjaði fyrir tilviljun haustið 2020 í októ­ber, akkúrat þegar Covid var í há­marki. Allt lokað, ekk­ert hægt að gera og fara og mjög strang­ar sam­komutak­mark­an­ir. Ég var far­in að fara í göngu­túr á hverj­um degi og svo var maður alltaf að labba sömu leiðina. Þá datt mér í hug að það gæti verið gam­an að setja mér það markmið yfir einn mánuð, októ­ber 2020, að labba í öll­um póst­núm­er­um á höfuðborg­ar­svæðinu,“ seg­ir Áslaug.

Í október 2020 fór Áslaug í göngutúr í póstnúmerum höfuðborgarsvæðisins. …
Í október 2020 fór Áslaug í göngutúr í póstnúmerum höfuðborgarsvæðisins. Til vinstri má sjá póstnúmerið 102 og til hægri er 110. Ljósmynd/Áslaug Björt Guðmundardóttir

Í sum­um til­fell­um fékk hún með sér fólk í göngu­túr sem bjó í viðkom­andi hverfi. „Ekki fór maður inn hjá þessu fólki í kaffi á þess­um tíma, svo það varð þá úr þessu smá sam­vera og spjall í leiðinni.“

Ákvað að út­víkka verk­efnið

Þegar októ­ber­göng­un­um á höfuðborg­ar­svæðinu var lokið hugsaði Áslaug með sér hvort hún ætti ekki að út­víkka verk­efnið og ganga í fleiri póst­núm­er­um, jafn­vel á öllu land­inu.

„En þau eru nátt­úru­lega rosa­lega mörg og erfitt að labba í mörg­um dreif­býl­is­póst­núm­er­un­um svo ég ákvað að hafa þetta bara ein­falt og láta þétt­býl­is­póst­núm­erin duga.“

Þétt­býl­ispóst­núm­er á Íslandi eru 94 tals­ins, 22 á höfuðborg­ar­svæðinu og 72 á lands­byggðinni en dreif­býl­is­núm­er­in eru 82. 19 póst­núm­er eru síðan frá­tek­in fyr­ir póst­hólf, tvö fyr­ir stærri einka­fyr­ir­tæki og op­in­ber­ar stofn­an­ir og eitt fyr­ir alþjóðlega flokk­un. En í þeim síðarefndu er vita­skuld ekki hægt að ganga.

233 Hafnir og 350 Grundarfjörður voru heimsótt síðasta sumar.
233 Hafnir og 350 Grundarfjörður voru heimsótt síðasta sumar. Ljósmynd/Áslaug Björt Guðmundardóttir

Sum­arið 2021 fór Áslaug því að ganga í póst­núm­er­un­um á lands­byggðinni. Hún fór Vest­f­irðina, Snæ­fellsnesið og hluta Suður­lands­ins. Hún hélt síðan áfram núna í sum­ar, fór hring­inn með alls kyns út­úr­dúr­um, tók allt norðaust­ur­hornið, flaug til Gríms­eyj­ar og sigldi til Hrís­eyj­ar.

„Þannig að nú er bara eitt póstnúmer eft­ir, Vest­manna­eyj­ar og ég ætla að klára það núna fyr­ir sum­ar­lok.“

Fékk góðan fé­lags­skap

Áslaug seg­ir margar góðar minningar hafa orðið til á göngunum. Tvennt stendur þó líklega upp úr, ann­ars veg­ar hversu gam­an hafi verið að á koma á marga þessa staði sem hún hafði ekki áður heim­sótt og svo sam­ver­a og spjall með góðum ferðafélögum.

„Í 17 af þess­um 94 póst­núm­er­um hef ég labbað ein en í öll­um hinum hef ég verið í ein­hverj­um félags­skap, vin­ir og fjöl­skyldumeðlim­ir sem hafa þá verið að labba með mér og það hef­ur verið gam­an og svo hef­ur mér þótt gam­an á hverj­um stað að rölta aðeins um og sjá hvað það er sem mig lang­ar til dæm­is að mynda,“ seg­ir hún.

Áslaug segir það augljóst á myndefnunum að hún sækir dálítið …
Áslaug segir það augljóst á myndefnunum að hún sækir dálítið í sjóinn. Hér má til vinstri sjá 380 Reykhóla og til hægri er 545 Skagaströnd. Ljósmynd/Áslaug Björt Guðmundardóttir

Áslaug hef­ur tekið mynd­ir í hverju póst­núm­eri og seg­ir það vera mis­jafnt hvað hún mynd­ar hverju sinni en segir það augljóst á myndefnunum að hún sæk­ir dá­lítið í sjó­inn. Tek­ur mynd­ir af sjón­um, sjáv­ar­sýn og bát­um en oft líka af gróðri og fallegri náttúru. Aft­ur á móti hef­ur hún ekki tekið marg­ar mynd­ir af fólki.

„Núna þegar ég er að klára og er að sjá að þetta eru meira og minna nátt­úrumynd­ir eða mynd­ir af hús­um, höfn­um og skip­um þá hugsa ég með mér að ég þarf eig­in­lega að gera þetta aft­ur og finna þá fólk í hverju ein­asta póst­núm­eri til þess að taka mynd­ir af. Það gæti verið skemmtileg fram­haldssería,“ seg­ir Áslaug.

Þarft ekki að vera í topp­formi 

Hún bæt­ir við að henni finn­ist áhuga­vert til þess að hugsa að það er alls kon­ar fólk í svipuðum verk­efn­um og hún sem enginn veit af.

„Ég er að taka labbitúra í öllum póst­núm­erum á land­inu og hef heyrt af fólki sem er t.d. að heim­sækja all­ar sund­laug­ar á land­inu, finna all­ar kirkj­ur, alla vita, alls kon­ar svona hluti. Hvað veit maður hvað fólki dett­ur í hug?“

630 Hrísey og 640 Húsavík.
630 Hrísey og 640 Húsavík. Ljósmynd/Áslaug Björt Guðmundardóttir

Áslaug tek­ur það sér­stak­lega fram að hún er eng­inn göngugarp­ur og göngurnar hafa alls ekki allar verið langar. „Ég til dæm­is labba aldrei á fjöll, mér finnst það erfitt og leiðin­legt og ég er ekki týp­an sem fer í 10-15 km göngu­túra. Mér finnst gam­an að rölta og skoða mann­líf, fara á kaffi­hús í leiðinni, klappa kött­um, og sjá eitt­hvað fal­legt,“ seg­ir hún og bend­ir á að til þess þurfi maður ekki að vera í topp­formi.

Eld­skírn á Dynj­and­is­heiði

Spurð hvaða póst­núm­er hafi verið skemmti­leg­ast að heim­sækja seg­ir Áslaug að sér hafi þótt einstaklega gam­an að heim­sækja Gríms­ey en þangað hafði hún ekki áður komið. Þá hafi henni líka þótt ótrú­lega fal­legt í þorp­un­um á norðaust­ur­kjálk­an­um: Raufar­höfn, Kópa­sker, Þórs­höfn, Bakka­fjörður og Vopna­fjörður. „Mér fannst mjög gam­an að koma þarna.“

Hún seg­ir Vest­f­irðina líka hafa verið mjög eft­ir­minni­lega en þangað fór hún með dótt­ur sinni Tinnu sem var þá í æf­inga­akstri og sá um aksturinn á milli póst­núm­era.

„Það var eld­skírn fyr­ir okk­ur báðar þegar hún keyrði yfir Dynj­and­is­heiðina. Hún stóð sig frábærlega og lærði rosa­lega mikið af þessu á meðan mín lexía var að læra að sleppa takinu og treysta,“ seg­ir Áslaug létt í bragði.

730 Reyðarfjörðu og 760 Breiðdalsvík.
730 Reyðarfjörðu og 760 Breiðdalsvík. Ljósmynd/Áslaug Björt Guðmundardóttir

Held­urðu að þú munir einhvern tímann taka dreifbýlisnúmerin?

„Ég skal játa að ég hef hugsað það, en það bíður betri tíma. Vest­manna­eyj­ar eru eft­ir núna af þéttbýlispóstnúmerunum, ég klára það og svo ætla ég aðeins að hug­leiða hitt en það væri gam­an,“ seg­ir Áslaug að lok­um.

825 Stokkseyri og 880 Kirkjubæjarklaustur.
825 Stokkseyri og 880 Kirkjubæjarklaustur. Ljósmynd/Áslaug Björt Guðmundardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert