Áslaug Björt Guðmundardóttir hefur síðustu tvö árin fengið sér göngutúr í öllum þéttbýlispóstnúmerum landsins nema einu, 900 Vestmannaeyjum, sem hún stefnir á að klára í sumar. Áslaug er þó enginn göngugarpur, frekar röltari sem fann sér skemmtilegt verkefni.
„Þetta byrjaði fyrir tilviljun haustið 2020 í október, akkúrat þegar Covid var í hámarki. Allt lokað, ekkert hægt að gera og fara og mjög strangar samkomutakmarkanir. Ég var farin að fara í göngutúr á hverjum degi og svo var maður alltaf að labba sömu leiðina. Þá datt mér í hug að það gæti verið gaman að setja mér það markmið yfir einn mánuð, október 2020, að labba í öllum póstnúmerum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Áslaug.
Í sumum tilfellum fékk hún með sér fólk í göngutúr sem bjó í viðkomandi hverfi. „Ekki fór maður inn hjá þessu fólki í kaffi á þessum tíma, svo það varð þá úr þessu smá samvera og spjall í leiðinni.“
Þegar októbergöngunum á höfuðborgarsvæðinu var lokið hugsaði Áslaug með sér hvort hún ætti ekki að útvíkka verkefnið og ganga í fleiri póstnúmerum, jafnvel á öllu landinu.
„En þau eru náttúrulega rosalega mörg og erfitt að labba í mörgum dreifbýlispóstnúmerunum svo ég ákvað að hafa þetta bara einfalt og láta þéttbýlispóstnúmerin duga.“
Þéttbýlispóstnúmer á Íslandi eru 94 talsins, 22 á höfuðborgarsvæðinu og 72 á landsbyggðinni en dreifbýlisnúmerin eru 82. 19 póstnúmer eru síðan frátekin fyrir pósthólf, tvö fyrir stærri einkafyrirtæki og opinberar stofnanir og eitt fyrir alþjóðlega flokkun. En í þeim síðarefndu er vitaskuld ekki hægt að ganga.
Sumarið 2021 fór Áslaug því að ganga í póstnúmerunum á landsbyggðinni. Hún fór Vestfirðina, Snæfellsnesið og hluta Suðurlandsins. Hún hélt síðan áfram núna í sumar, fór hringinn með alls kyns útúrdúrum, tók allt norðausturhornið, flaug til Grímseyjar og sigldi til Hríseyjar.
„Þannig að nú er bara eitt póstnúmer eftir, Vestmannaeyjar og ég ætla að klára það núna fyrir sumarlok.“
Áslaug segir margar góðar minningar hafa orðið til á göngunum. Tvennt stendur þó líklega upp úr, annars vegar hversu gaman hafi verið að á koma á marga þessa staði sem hún hafði ekki áður heimsótt og svo samvera og spjall með góðum ferðafélögum.
„Í 17 af þessum 94 póstnúmerum hef ég labbað ein en í öllum hinum hef ég verið í einhverjum félagsskap, vinir og fjölskyldumeðlimir sem hafa þá verið að labba með mér og það hefur verið gaman og svo hefur mér þótt gaman á hverjum stað að rölta aðeins um og sjá hvað það er sem mig langar til dæmis að mynda,“ segir hún.
Áslaug hefur tekið myndir í hverju póstnúmeri og segir það vera misjafnt hvað hún myndar hverju sinni en segir það augljóst á myndefnunum að hún sækir dálítið í sjóinn. Tekur myndir af sjónum, sjávarsýn og bátum en oft líka af gróðri og fallegri náttúru. Aftur á móti hefur hún ekki tekið margar myndir af fólki.
„Núna þegar ég er að klára og er að sjá að þetta eru meira og minna náttúrumyndir eða myndir af húsum, höfnum og skipum þá hugsa ég með mér að ég þarf eiginlega að gera þetta aftur og finna þá fólk í hverju einasta póstnúmeri til þess að taka myndir af. Það gæti verið skemmtileg framhaldssería,“ segir Áslaug.
Hún bætir við að henni finnist áhugavert til þess að hugsa að það er alls konar fólk í svipuðum verkefnum og hún sem enginn veit af.
„Ég er að taka labbitúra í öllum póstnúmerum á landinu og hef heyrt af fólki sem er t.d. að heimsækja allar sundlaugar á landinu, finna allar kirkjur, alla vita, alls konar svona hluti. Hvað veit maður hvað fólki dettur í hug?“
Áslaug tekur það sérstaklega fram að hún er enginn göngugarpur og göngurnar hafa alls ekki allar verið langar. „Ég til dæmis labba aldrei á fjöll, mér finnst það erfitt og leiðinlegt og ég er ekki týpan sem fer í 10-15 km göngutúra. Mér finnst gaman að rölta og skoða mannlíf, fara á kaffihús í leiðinni, klappa köttum, og sjá eitthvað fallegt,“ segir hún og bendir á að til þess þurfi maður ekki að vera í toppformi.
Spurð hvaða póstnúmer hafi verið skemmtilegast að heimsækja segir Áslaug að sér hafi þótt einstaklega gaman að heimsækja Grímsey en þangað hafði hún ekki áður komið. Þá hafi henni líka þótt ótrúlega fallegt í þorpunum á norðausturkjálkanum: Raufarhöfn, Kópasker, Þórshöfn, Bakkafjörður og Vopnafjörður. „Mér fannst mjög gaman að koma þarna.“
Hún segir Vestfirðina líka hafa verið mjög eftirminnilega en þangað fór hún með dóttur sinni Tinnu sem var þá í æfingaakstri og sá um aksturinn á milli póstnúmera.
„Það var eldskírn fyrir okkur báðar þegar hún keyrði yfir Dynjandisheiðina. Hún stóð sig frábærlega og lærði rosalega mikið af þessu á meðan mín lexía var að læra að sleppa takinu og treysta,“ segir Áslaug létt í bragði.
Heldurðu að þú munir einhvern tímann taka dreifbýlisnúmerin?
„Ég skal játa að ég hef hugsað það, en það bíður betri tíma. Vestmannaeyjar eru eftir núna af þéttbýlispóstnúmerunum, ég klára það og svo ætla ég aðeins að hugleiða hitt en það væri gaman,“ segir Áslaug að lokum.