Brött rafbílavæðing Íslands kallar á hraða innviðauppbyggingu og lausnir við nýjum vandamálum sem kunna að koma upp þegar ferðast er um landið.
Runólfur Ólafsson, formaður FÍB, segir að á meðan hleðslustöðvum og þjónustuvalkostum hafi vissulega fjölgað sé enn langt í land.
„Það er uppbygging í gangi og það virðist vera hugur í þeim sem standa í þessari starfsemi en það er víða sem þessir hlutir eru bara ekki í lagi,“ segir Runólfur í samtali við mbl.is.
Þróunin sé í rétta átt en til þess að orkuskiptin geti gengið fyrir sig áfallalaust þurfi að bæta í þjónustuna og auka uppbyggingu á hleðslustöðvum vítt og breytt um land.
Sem dæmi séu enn víða kaldir staðir á landinu þar sem lítið er um hleðslustöðvar, einna helst á Vestfjörðum og Austurlandi auk þess sem það sé of algengt bilun eða hnökrar séu á hleðslustöðvum.
Rafbílaeigendur þurfi nú að undirbúa ferðalagið vel fyrirfram auk þess sem það sé orðinn hluti af ferðalaginu að bíða eftir hleðslustöð.
„Þetta byrjaði á drægnikvíða og nú er þetta orðinn biðraðakvíði.“
Að því sögðu segir Runólfur margt að gerast og uppbyggingin verið hröð síðustu ár. Hringvegurinn sé að mestu dekkaður og samkeppni að aukast.
„Það er vel. Líklega er enginn að hafa mikinn pening af þessari þjónustu eins og er en menn eru að hugsa til framtíðar.“ Einnig hafi stjórnvöld stutt við uppbyggingu hleðslustöðva víða um land. „Þannig það hefur verið hvati.“
Er þetta að gerast nógu hratt að þínu mati?
„Það er fullt af hlutum að gerast og ég held að þessi hröðu umskipti og góða sala í rafbílum verði til þess að menn verði meira á tánum við að hraða uppbyggingu og bæta þjónustuna. Það er það sem þetta gengur út á.“
Runólfur segir að „í fullkomnum heimi“ væri uppbyggingin komin lengra en Ísland sé þó komið ansi langt á heimsvísu. „Norðmenn leiða þetta og ætli við séum ekki hreinlega í öðru sæti.“