Kröftugir jarðskjálftar – sá öflugasti 4,9 að stærð

Bárðarbunga í Vatnajökli.
Bárðarbunga í Vatnajökli. mbl.is/Árni Sæberg

Kröftugir jarðskjálftar urðu í Bárðarbungu á síðasta klukkutímanum. 

Sá fyrsti reið yfir klukkan 13.23 og samkvæmt tölum Veðurstofunnar mældist hann 4,4 að stærð. Eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið sem voru minni um sig.

Klukkan 13.45 varð enn harðari skjálfti. Var hann 4,9 að stærð. Skjálftarnir voru báðir á Bárðarbungusvæðinu sem er víðáttumesta eldstöð landsins. Nánar tiltekið í norðanverðri öskju Bárðarbungu. 

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni eru engin merki um gosóróa. Er virknin í takti við skjálftavirkni sem verið hefur í Bárðarbungu. Þar hafa orðið skjálftar af og til og í maí varð til að mynda skjálfti 4,4 að stærð. 

Síðasti skjálfti af þessi stærð varð í janúar 2020 og þar áður í janúar 2018 samkvæmt Veðurstofunni. Skjálftar af stærð 4 og stærri eru ekki óalgengir í Bárðarbungu og alls hafa um 50 mælst frá því að eldgosi í Holuhrauni lauk í febrúar 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert