Um fimmleytið í nótt var tilkynnt um mann með rafbyssu við Austurvöll.
Hann fannst þó ekki samkvæmt dagbók lögreglunnar. Nóttin var annasöm hjá lögreglunni en morguninn hefur verið í rólegri kantinum.
Einstaklingur í miðborginni gerðist ástleitinn mjög í nótt en áhuginn var ekki gagnkvæmur. Lét hann þó ekki segjast fyrr en óskað hafði verið eftir aðstoð lögreglu.
„Par sem hafði verið úti á lífinu í miðborginni óskaði aðstoðar lögreglu vegna manns sem hafði sýnt öðru þeirra full mikinn og ákafan áhuga, en sá mun ekki hafa linnt látum þó honum væri ítrekað bent á þessi áhugi hans væri engan veginn endurgoldinn. Virtist viðkomandi þó ekki hafa áhuga á að ræða þessi mál við lögreglu og lét sig hverfa áður en laganna verði bar að,“ segir í færslu lögreglunnar.