Segir óprúttinn aðila eitra fyrir dýrum í Kópavogi

Elín segir fiskflök með eitri hafa verið lögð á göngustíg.
Elín segir fiskflök með eitri hafa verið lögð á göngustíg. mbl.is/Sigurður Bogi

Elín Gylfadóttir, hundaeigandi í Kópavogi, telur að eitrað hafi verið fyrir hundunum hennar þrem í síðustu viku. Í samtali við mbl.is segir hún íbúa hverfisins slegna yfir málinu, nú sé fylgst með öllum grunsamlegum mannaferðum

„Þeir eru þrír á sama heimili með svona eitrunareinkenni og það er stjarnfræðilega ólíklegt að þeir veikist allir svona. Við höfum nokkrum sinnum þurft að fara með hundana á dýralæknavakt af því að þeir hafa veikst harkalega, sérstaklega tíkin mín. Það eru allir sammála um það að þetta sé einhverskonar eitrun,“ segir Elín og bætir við:

„Það hafa verið lögð fiskflök á göngustíginn sem hafa verið sprautuð með frostlegi. Þessi flök eru ýmist blá eða rauð og þá veit maður að það er búið að sprauta þau með frostlegi. Þannig að það er einhver sem er að eitra fyrir dýrum hérna.“

Að sögn Elínar er mikil samstaða í götunni um að finna hinn óprúttna aðila.

„Það er mikil samstaða hérna í götunni, það eru allir brjálaðir yfir þessu. Allir þeir sem eru með myndavélar í görðunum sínum eru að fylgjast með og þeir sem labba hérna með dýr í böndum eru látnir vita að hafa augun hjá sér.“

Fá vökva í æð

Hundarnir voru ekki orðin veikir þegar uppgötvaðist að eitrað hafði verið fyrir þeim, en í blóðprufum sem teknar voru kom fram að lifrargildi þeirra væru slæm. Ekki er vitað hvaða eiturefni var notað.

Nú fá hundarnir vökva í æð tvisvar á dag en Elín segir að enn hafi ekki tekist að snúa versnandi lifrargildum við, hún heldur þó í vonina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert