Víðáttan mikla í sveit milli sanda

Bærinn Fljótakrókur og ofar í landinu í baksýn er Efri-Steinsmýri
Bærinn Fljótakrókur og ofar í landinu í baksýn er Efri-Steinsmýri mbl.is/Sigurður Bogi

Meðalland og Landbrot heitir landið milli Kúðafljóts og Skaftár í Vestur-Skaftafellssýslu. Þetta er í Skaftárhreppi, mikil víðátta og hér segir frá svæðinu sunnan hringvegarins í Eldhrauni og fram til sjávar. Hraunin miklu, meðal annars sá kargi sem rann frá Lakagígum árið 1783, nær talsvert hér suður á bóginn en framar eru mýrlendi og sandar. Víða eru tjarnir með starargróðri og lækir þar sem eftirsótt er að renna fyrir sjóbirting. Sveitabæir eru allmargir en húsakostur víða sýnir glögglega að byggðin á í vök að verjast. Frá því eru þó undantekningar og möguleikar til vaxtar og viðgangs. Að minnsta kosti tekur Sigursveinn Guðjónsson, bóndi á Lyngum í Meðallandi, þann pól í hæðina.

Uppspretta í ómæli

Leiðin um Eldssveitir, eins og þetta svæði er stundum kallað, liggur frá Kirkjubæjarklaustri og suður á bóginn með Skaftá á hægri hönd. Í góðu veðri blasa hér við Lómagnúpur og Öræfajökull, þar sem Hvannadalshnúk ber við himin. Hér erum við í Landbroti. Hraun stendur hér víða upp úr landinu og bæir eru gjarnan í brúnum þess. Hér eru eftirtektarverð bæjarnöfn, svo sem Fagurhlíð, Arnardrangur og Seglbúðir. Á nokkrum stöðum er starfrækt ferðaþjónusta í einhverri mynd, og svo hefðbundinn landbúnaður. Víða eru ágæt tún, en útjörð er gjarnan valllendi með viðkvæmum gróðri í eldfjallajarðvegi.

Kort/mbl.is

Landbroti sleppir og Meðalland tekur við ofan við bæinn Efri-Steinsmýri. Þegar svo komið er nokkuð fram í Meðalland er ekið yfir brúna á Eldvatni. Upptök þess eru í svonefndum Fljótsbotni í Eldhrauni, en úr uppsprettum þar steymir vatn fram í ómæli. Í mýrlendinu efst í Meðallandi liggur beinn vegur, mjór með slitlagskápu. Hægt er að taka og aka eins konar hring um sveitina, 50 kílómetra lykkju frá Klaustri og koma svo aftur inn á hringveginn nærri Kúðafljótsbrúnni.

Landgræðslubóndi á Lyngum

Í Meðallandi eru bæir gjarnan nokkurn spöl frá aðalvegi og langir afleggjarar eru að þeim. Einn slíkur liggur að kirkjunni í Langholti en innar á sama legg er bærinn Lyngar. Þar er tvíbýlt og á öðrum bænum búa hjónin Soffía Antonsdóttir og Sigursveinn Guðjónsson. Hér hefur hann raunar búið hér alla tíð; er 12. í röðinni af þrettán systkinum.

Gamla íbúðarhúsið má muna sinn fífil fegri. Forðum daga var …
Gamla íbúðarhúsið má muna sinn fífil fegri. Forðum daga var þarna starfrækt kramvörubúð og bærinn var ákveðinn miðpunktur í Leiðvallahreppi, eins og sveitin hét forðum daga. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þegar ég var hér að alast upp á árunum um og eftir 1950 voru hér margir bæir í byggð og yfirleitt fjöldi barna á hverjum þeirra. Þetta er gjörbreytt núna, eins og flest hér í sveitinni,“ segir Sigursveinn sem lengi hafði skólaakstur og vörubílaútgerð sem aðalstarf. Búskapurinn var aukageta, en taldi þó samt.

Í dag segist Sigursveinn, gjarnan nefndur Svenni, líta á sig sem landgræðslubónda. Hann hefur unnið mikið starf við að græða upp land bæði á Lyngum og Grímsstöðum, sem er samliggjandi jörð og er 4.500 ha. Á söndum þar hafa börð verið stungin niður og hey úr rúllum sett í flög.

Öllu var ógnað

„Sú var tíðin að sandfok ógnaði öllu hér. Algjör kaflaskil urðu í þeirri þróun þróun með framræsluskurðum sem byrjað var að grafa árið 1953. Seinna var hér grafið til framræslu í því skyni að þurrka landið. Fram á sandana er þannig veitt vatni með áburði og náttúrulegum efnum. Árangur af því er mjög góður,“ segir Sigursveinn og bætir við:

„Áður en skurðirnir komu fór láglendi hér stundum nánast á kaf og á vetrum þegar frysti var svell um jarðir sem laus sandur fauk eftir. Þetta var vítahringur gróðureyðingar, sem blessunarlega tókst að brjóta upp. Mér finnst gaman að sjá hvað gróður hér dafnar, en slíkt hefur gert landið mjög verðmætt.“

Á Langholti er sveitakirkjan hvítmáluð með rauðu þaki í hefðbundnum …
Á Langholti er sveitakirkjan hvítmáluð með rauðu þaki í hefðbundnum íslenskum stíl, reist árið 1863. Er vel við haldið og setur svip sinn á svæðið mbl.is/Sigurður Bogi

„Tilvalið fyrir vindorkugarð“

Landgæði skapa möguleika. Við bæinn Sandhól í Meðallandi eru ræktaðir hafar, bygg og repja. Einnig er þar nautgripabúskapur og nytjaskógrækt. Hestamenn líta sömuleiðis til þessa svæðis í umsvifum sínum og sama gera spekúlantar sem vilja virkja vindinn. Hlutafélagið Cair áformar að segja upp vindorkugarð í landi Grímsstaða og leigir jörðina af Sigursveini bónda. Orkan sem framleiða mætti á þessum slóðum gæti verið um 135 MW. Drög að mati á umhverfisáhrifum orkuvers liggja fyrir. Samkvæmt þeim gögnum er svæðið „...tilvalið fyrir vindorkugarð þar sem um er að ræða flatt svæði, fjarri fjöllum og skjóli og því vindasamt“.

Að mörgu er þó að hyggja ef virkja skal og sérstaklega þarf að líta eftir fuglalífi. „Að mínu mati hentar afar vel að reisa vindmyllur á þessum slóðum,“ segir Sigursveinn á Lyngum. Hann vísar þar til veðurathugana sem gerðar hafa verið fram við sjó við Skarðsfjöruvita. Þarna er jafn og stöðugur vindur. Á hverjum 100 klukkustundum er logn í fjórar!

Skarðsfjara og Gullsandur

Skarðsfjara er nefnd eftir kirkjustaðnum Skarði í Meðallandi, sem til var fyrir öldum en sandfok lagði í auðn. Kirkjan átti ítök og margvíslegar nytjar þarna við sjóinn, samanber máltækið um að þetta og hitt reki á fjörurnar. Gengið á reka, er orðalag af sama meiði.

Skipsströnd hér voru líka tíð fyrr á tímum. Frá síðustu árum 19. aldar og fram undir lok þeirrar 20. eru skráðar heimildir um nærri 100 skip sem þarna fóru upp í fjöru og grófust flest í sandinn. Vitinn þarna, stór járngrind með ljóshúsi efst sem reist var um 1960, var því ómissandi fyrir sjófarendur.

Skarðsfjöruviti er leiðarljós í fjörunni þar sem skipsströnd voru tíð.
Skarðsfjöruviti er leiðarljós í fjörunni þar sem skipsströnd voru tíð. mbl.is/Sigurður Bogi

Úr byggð liggur vegslóði að Skarðsfjöruvita þar sem á kafla er ekið um sanda sem vatnsgljá flæðir yfir. Þegar nær fjöru kemur er þrætt milli melgresishóla. Umhverfi þetta er ævintýralegt að sjá og upplifa, en það þekkja sjálfsagt einhverjir úr bíómyndinni Gullsandur eftir Ágúst Guðmundsson. Myndin, sem var gerð árið 1984, er að mestu leyti tekin upp þarna. Inntak hennar er einhverskonar ádeila eða skop um Varnarliðið og umsvif þess á Íslandi og leitina eilífu á Skeiðarársandi að gullskipinu fræga, Het Wapen van Amsterdam. Sá barkur er ófundinn enn og víst er að ekki er allt gull sem glóir. Verðmætin geta falist í mörgu öðru og hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér í Landbroti og Meðallandi.

Sigurbjörn biskup og Kjarval

Sú var tíðin að á bugtinni úti fyrir Meðallandi mátti gjarnan sjá fjölda fiskiskipa frá Evrópu, sem þá sóttu á Íslandsmið. Franskar duggur voru þar áberandi og ófáar slíkar strönduðu í fjörunni. Með strandmönnum barst framandleg menning inn í samfélag sem var þá frumstætt og fábreytt á flesta vísu.
Jóhannes Kjarval var fæddur í Meðallandi en ólst upp að …
Jóhannes Kjarval var fæddur í Meðallandi en ólst upp að mestu á Borgarfirði eystra. mbl.is/Ólafur K. Magnússon
Umhverfi þetta ól þó af sér menn stóra í andanum. Frá Efri-Steinsmýri var Sigurbjörn Einarsson biskup (1911-2008) og á Efri-Ey Jóhannes Sveinsson Kjarval listmálari (1885-1972). Báðir settu þeir sterkan svip á samtíma sinn. Og þótt þeir væru aðeins sín fyrstu ár í Meðallandi má ætla að umhverfi og aðstæður þar hafi fylgt þeim alla leið og mótað en báðir höfðu þeir hvor með sínum hætti mikil áhrif á samfélagið.

Í landinu leynist mikið líf

„Í landinu hér leynist glettilega mikið líf,“ segir Björn Hjaltason náttúrufræðingur. Hann var um síðustu helgi á útkíkki í Meðallandi og fylgdist þar með fuglum og öðru kviku í náttúrunni. Blaðamaður hitti Björn í mólendinu fyrir neðan Bakkakotsbæina svonefndu, hvar hann staðsetti sig á fyrirfram ákveðnum punkti þar sem útsýni er ágætt. Þeir Björn, Jóhann Óli Hilmarson og Alex Máni Guðríðarson hafa með höndum að rannsaka fuglalíf á þessum slóðum. Allar upplýsingar um slíkt þurfa að liggja fyrir vegna mats á umhverfisáhrifum, komi til þess að vindmyllur verði reistar á þessum slóðum eins og áform eru um.

„Síðustu tvö árin höfum við verið reglulega í mólendinu hér við rannsóknir. Erum þá í ákveðinn daga- og stundafjölda á hverjum stað fyrir sig hér í mólendinu en út frá slíkum forsendum eru mælingar gerðar. Innan tíðar munum við svo færa okkur sunnar og niður á sandana niður við sjó,“ segir Björn.

Björn Hjaltason náttúrufræðingur var við fuglatalningu á besta staðnum með …
Björn Hjaltason náttúrufræðingur var við fuglatalningu á besta staðnum með kíkinn. mbl.is/Sigurður Bogi

Í móum Meðallands er mikið um til dæmis óðinshana, spóa og lóuna með sitt dirrindí. Einnig sést þar kjói og svo skúmurinn, sem segja má að sé einkennisfugl sandanna á suðaustanverðu landinu. Einnig sjást á þessum slóðum álftir og gæsin er áberandi á haustin.

„Hér er margt að sjá og vinnan er skemmtileg, en inntak hennar er í raun að halda athygli og fylgjast vel með. Skrá niður upplýsingar sem verða mikilvægar þegar kemur að því að taka ákvarðanir um orkunýtingu á þessu svæði,“ segir náttúrufræðingurinn.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu á fimmtudaginn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert