Aftur krotað á regnbogafánann

Er þetta í annað skiptið sem hatursskilaboð birtast á stéttinni.
Er þetta í annað skiptið sem hatursskilaboð birtast á stéttinni. Ljósmynd/Grafarvogskirkja

Aftur hafa hatursskilaboð dúkkað upp á tröppunum fyrir framan Grafarvogskirkju, sem skreyttar eru með litum regnbogafánans.

Að þessu sinni var tilvísun í 3. Mósebók í Biblíunni þar sem segir: „Leggist karlmaður með karlmanni eins og lagst er með konu fremja þeir báðir viðurstyggilegt athæfi. Þeir skulu báðir líflátnir. Blóðsök þeirra skal koma yfir þá.“

Segir frá þessu í færslu á Facebook-síðu kirkjunnar þar sem einnig er tekið fram að í sama kafla séu ýmis ákvæði um að lífláta skuli fólk fyrir aðrar sakir, til dæmis að bölva föður sínum eða móður.

Kjósa frekar að fylgja boðskap Jesú

Fyrr í vikunni hafði óprúttinn aðili ritað „Antichrist!“ á tröppurnar en sama dag var málað yfir hatursskilaboðin.

„Við í Grafarvogskirkju kjósum frekar að fylgja boðskap Jesú Krists, sem sagði okkur að elska hvert annað. Við trúum því að hver einasta manneskja sé elskuð sköpun Guðs sem hefur leyfi til að lifa því lífi sem henni/háni/honum er áskapað,“ segir í færslu Grafarvogskirkju.

Boðskapur Jesú Krists er í fullu samræmi við mannréttindayfirlýsingar, og við í Grafarvogskirkju stöndum með mannréttindum og berjumst gegn hatri og fordómum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert