Ekki fleiri andlát á einni viku í fimm ár

Fyrstu 26 vikur ársins 2022 dóu að meðaltali 53,8 í …
Fyrstu 26 vikur ársins 2022 dóu að meðaltali 53,8 í hverri viku eða fleiri en fyrstu 26 vikur áranna 2017-2021. mbl.is/Arnþór Birkisson

Alls dóu 78 einstaklingar dagana 28. febrúar til 6. mars en það er hæsta tíðni andláta í einni viku sem skráð hefur verið hér á landi á tímabilinu 2017 til 2022. 

Þá dóu að meðaltali 53,8 í hverri viku, fyrstu 26 vikur ársins, en það eru jafnframt fleiri en létust að meðaltali fyrstu 26 vikur áranna 2017 til 2022, þar sem meðaltalið var 45.

Þetta kemur fram í tilkynningu Hagstofu en samkvæmt henni byggir tölfræðin á upplýsingum úr dánartilkynningum sem skráðar eru hjá Þjóðskrá Íslands.

Þar segir einnig að talningar á dánum fyrir árið 2022 séu byggðar á bráðabirgðatölum sem þýðir að líklegt sé að um vanmat á fjölda sé um að ræða, aðallega vegna síðbúinna dánartilkynninga.

Tekið skal fram að Hagstofan hefur ekki tekið saman fjölda andláta eftir vikum fyrir önnur tímabil.

Tíðasti aldurinn 87 ár

Tíðasti aldur látinna fyrstu 26 vikur ársins mun hafa verið 87 ár en það var einnig tíðasti aldur fyrir sömu vikur áranna 2017 til 2021.

Þá dóu að jafnaði flestir í aldursflokknum 90 ára og eldri yfir tímabilið 2017 til 2022.

Hér fyrir neðan má sjá línurit yfir þróun á vikulegri dánartíðni árin 2017-2022. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert