Engin sprengja hefur fundist

Frá flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Frá flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Engin sprengja hefur fundist í Airbus-vélinni sem varð að snúa við til Keflavíkurflugvallar vegna sprengjuhótunar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum en vélin sem var á vegum þýska flugfélagsins Condor hafði verið að fljúga frá Frankfurt í Þýskalandi til Seattle í Bandaríkjunum var yfir Grænlandi þegar sprengjuhótunin barst íslenskum flugmálayfirvöldum.

Í tilkynningu segir einnig að greiðlega hafi gengið að rýma vélina og að umfangsmiklar aðgerðir viðbragðsaðila séu enn í gangi á vettvangi.

Samkvæmt verklagi er sprengjusveit sérsveitar ríkislögreglustjóra að störfum í vélinni en unnið er samkvæmt sérstakri neyðaráætlun vegna flugverndar fyrir Keflavíkurflugvöll.

Gætu verið raskanir á brottförum

Að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa hjá Isavia, má búast við einhverri röskun á brottförum frá Keflavíkurflugvelli í kvöld.

Hann hvetur farþega til að fylgjast með vefsíðu Keflavíkurflugvallar en þar eru upplýsingar um komur og brottfarir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert