Fjölskylda Johns Snorra lögð af stað til Pakistan

Talið er að John Snorri hafi náð á toppinn á …
Talið er að John Snorri hafi náð á toppinn á K2 áður en hann lést. Ljósmynd/Aðsend

Fjölskylda Johns Snorra Sigurjónssonar lagði af stað í gær til Pakistan, en þau fara í þeim tilgangi að ljúka leiðangri hans til að klifra fyrstur manna upp K2 fjallið að vetrarlagi, þar sem hann fórst í mars síðasta árs.

Þetta kemur fram á færslu Línu Móeyjar, ekkju Johns Snorra, á Instagram.

Herinn tekur á móti þeim

Lína Móey segir frá ferðinni á samfélagsmiðlinum Instagram. Hún segir stóran hluta aðdraganda ferðarinnar fela í sér andlegan undirbúning og ítrekar í færslu sinni mikilvægi þess að öryggi allra sé tryggt. 

Fjölskylda Johns Snorra hafði fyrr í þessum mánuði óskað þess að hann yrði færður og graf­inn þar sem vin­ir hans og fjall­göngu­menn­irn­ir Ali Sa­dp­ara og Jaun Pablo eru grafn­ir. Að öðrum kosti yrði hann færður frá göngu­leiðinni þangað sem hann sæist ekki.

Fjölskyldan dvelur í Pakistan í tvær vikur, en Lína greinir frá því að þau flokkist undir mikilvæga (e. high profile) gesti og því taki herinn á móti þeim þegar þau lenda í Pakistan.

Á ferð þeirra hitta þau m.a. Arif Alvi, forseta Pakistan, og fara í viðtöl við fjölmiðla, ásamt því að hitta fólk sem kom að leitinni að John Snorra, að sögn Línu.

„Ég er búin að finna ótrúlegan stuðning, bæði frá fólki sem ég þekki og þekki ekkert, og eru allir tilbúnir að aðstoða eins og þeir geta,“ segir Lína í færslu sem hún setti inn síðastliðinn fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert