Hámarkshraði lækkaður yfir Þjóðhátíð

Þjóðhátíð fór síðast fram árið 2019.
Þjóðhátíð fór síðast fram árið 2019. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Umferðarskipulag í Vestmannaeyjum mun taka breytingum yfir verslunarmannahelgina þegar Þjóðhátíð fer fram í Heimaey.

Verður hámarkshraði á Dalvegi m.a. lækkaður úr 50 km/klst í 15 km/klst og framúrakstur bannaður. Umferð um veginn verður einungis leyfð til að leggja í bifreiðastæði og til að skila fólki og sækja það. Akstur stærri ökutækja verður ekki heimilaður á Dalvegi nema fyrir ökutæki til fólks- eða vöruflutninga á vegum þjóðhátíðarnefndar.

Þá verður hámarkshraði á Hamarsvegi frá Áshamri að Brekkugötu einnig lækkaður úr 50 km/klst í 30 km/klst. 

Í tilkynningu á vef lögreglu segir að breytingarnar verði í gildi frá klukkan 13:00 á föstudeginum og þangað til klukkan slær 19:00 á mánudeginum.

Þar er þjóðhátíðargestum jafnframt bent á sérstaklega merkt bifreiðastæði í nágrenni við Herjólfsdal en bifreiðum sem verður lagt utan merktra bifreiðastæða verða fjarlægðar og teknar í vörslu lögreglu á kostnað eigenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert