„Sá mikli fjöldi ferðafólks sem hingað kemur [þarf] að dreifast betur um landið. Álagið er mjög misjafnt,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í samtali við mbl.is.
Nauðsynlegt er að mæta nýjum veruleika sem skapast hefur á vaxtarsvæðum þar sem til að mynda ferðaþjónustan er burðarás í atvinnulífinu. Styrkja þarf innviði á viðkomandi stöðum og styrkja mikilvæga starfsemi þar. Þetta segja nokkrir þingmenn Suðurkjördæmis, spurðir um stöðu mála. Í Morgunblaðinu sl. föstudag sagði Einar Freyr Elínarson, væntanlegur sveitarstjóri í Mýrdal, frá því viðhorfi sínu að ríkið yrði að standa við sitt í nauðsynlegri uppbyggingu úti á landi. Tiltók þar að á ári hverju kæmi um milljón manns í Reynisfjöru og í Vík, með öllu því álagi sem slíku fylgdi til dæmis á heilbrigðisþjónustuna og vegakerfið.
Í fjárveitingum til samfélagslegra verkefna fylgir ríkið þumalputtareglu um fjölda skráðra íbúa með lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi. Í Mýrdalshreppi búa nú um 850 manns og vissulega hefur fjölgað þar mjög á undanförnum árum. Ferðafólkið með sínar fjölbreyttu þarfir skapar hins vegar álag á almannaþjónustuna. Því verður að bregðast við af myndugleika, segir sveitarstjórinn. Sjónarmið hans virðist njóta góðs skilnings, af orðum stjórnmálamanna að dæma
„Sú staða sem nú er uppi í Vík í Mýrdal á sér margar hliðstæður víða um land; í Suðurkjördæmi eins og víða annars staðar. Í fyrsta lagi þarf sá mikli fjöldi ferðafólks sem hingað kemur að dreifast betur um landið. Álagið er mjög misjafnt. Á þeim stöðum sem flestir sækja þarf að gera betur í heilbrigðismálum og neyðarþjónustu. Þar tel ég mikilvægt að nálgast verkefnin með nýjum lausnum sem tölvutæknin býður upp á og nota þyrlur í ríkari mæli til sjúkraflutninga,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.
„Samgöngumál eru alltaf í brennidepli og svo þarf að gera betur í uppbyggingu húsnæðis úti á landi. Í ferðaþjónustu út um land er fólk af erlendum uppruna mikilvægt vinnuafl sem segja má að haldi greininni uppi. Margt af því fólki er að festa rætur hér á landi, en oft hefur ekki tekist að tryggja því fólki boðlegt húsnæði. Þarna þurfa ríki og sveitarfélög og aðrir eftir atvikum að finna sameiginlegar lausnir. Atvinnulíf úti á landi í dag er víða í ágætum gangi og þangað vill fólk flytja ef boðleg skilyrði eru til staðar. Að slíku vil ég vinna. Sjálf hef ég verið á ferðinni víða um land að undanförnu og þar séð að úrlausnarefnin eru víða svipuð og er lýst í Mýrdalnum. Því er ljóst hvernig landið liggur.“
Hægt er að lesa svör fleiri þingmanna í Morgunblaðinu í dag.