Ekkert skilti og engin merki eru enn komin á Kænugarð eða Kýiv-torg, sem stendur á gatnamótum Garðastrætis og Túngötu, þrátt fyrir samþykkt þess efnis í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar hinn 27. apríl.
Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, segist ætla að athuga hvar málið er statt en hann tekur jafnframt fram að málið hafi verið samþykkt fyrir kosningar.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, vekur athygli á málinu í færslu á Facebook.
Fyrir þremur mánuðum, sama dag og tillagan var samþykkt, var umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar falið að hefja undirbúning við gerð skiltis við torgið.
„Hversu hægt vinnur þetta borgarkerfi eiginlega? Svo er annað mál að samstöðutáknið mætti verða sýnilegra en venjulegt skilti,“ skrifar Ólafur en samþykkt var jafnframt að senda skýr skilaboð um stuðning við úkraínsku þjóðina.
„Bezt væri ef fáni Úkraínu fengi að blakta á Kýiv-torgi dag og nótt, upplýstur þegar dimmt væri. Það færi þá ekki framhjá fulltrúum stríðsglæpamannanna í Kreml þegar þeir mættu í vinnuna með hverjum Reykvíkingar standa. Einar Þorsteinsson, er ekki hægt að treysta þér til að ganga í að klára þetta mál þannig að sómi sé að?“
Færslan bar tilætlaðan árangur en Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs Reykjavíkur, skrifaði athugasemd við færslu Ólafs og sagðist myndu ganga í málið. „Takk fyrir góða ábendingu. Þetta var samþykkt fyrir kosningar. Skal athuga hvar þetta mál er statt og ýta á eftir því“.