Loftbrúin hefur kostað tæpar 700 milljónir kr.

Boeing 757-þota Icelandair var notuð í innanlandsflugi snemma í mánuðinum.
Boeing 757-þota Icelandair var notuð í innanlandsflugi snemma í mánuðinum. mbl.is/Árni Sæberg

Ríkissjóður hefur niðurgreitt flugfargjöld innanlands fyrir tæpar 700 milljónir króna síðan svokölluð Loftbrú var tekin upp í september 2020. Þetta kemur fram í skriflegu svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn Morgunblaðsins. Vegagerðin hefur umsjón með Lofbrú fyrir hönd ríkisins og sinnir öllu eftirliti og umsýslu henni tengdri.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, mánudag.

Í svari Vegagerðarinnar kemur fram hve háar upphæðir stofnunin hefur greitt til notenda Loftbrúarinnar vegna afsláttarins, skipt eftir mánuðum.

Þar má sjá að Loftbrúin fór frekar hægt af stað. Í september 2020 voru greiddar 13.531.141 kr. og í október 6.294.343 kr. Árið 2021 eykst notkun Loftbrúar og hæsta greiðsla það ár var í október, 47.124.496 kr. Það sem af er árinu 2022 hafa verið greiddar út yfir 40 milljónir alla mánuði nema einn, þ.e. janúar. Hæsta greiðslan var í mars 2022 eða 57.107.031 kr. Heildargreiðslan vegna Loftbrúar, til og með júní síðastliðnum, er 683.921.686 krónur.

Bætt aðgengi landsbyggðarinnar

Loftbrú var hleypt af stokkunum 9. september 2020 með það að markmiði að bæta aðgengi íbúa á landsbyggðinni að miðlægri þjónustu og efla byggðir með því að gera innanlandsflug að hagkvæmari samgöngukosti. Loftbrú veitir afsláttarkjör til þeirra sem eiga lögheimili á landsbyggðinni fjarri höfuðborgarsvæðinu og á eyjum án vegasambands. Rúmlega 60 þúsund íbúar eiga rétt á Loftbrú en hver einstaklingur getur fengið lægri fargjöld fyrir allt að sex flugleggi til og frá Reykjavík á ári.

Fram kom á heimasíðu Vegagerðarinnar fyrir skömmu að Loftbrú hefur verið notuð til niðurgreiðslu á yfir 100 þúsund flugleggjum á þeim tæpu tveim árum sem hún hefur verið aðgengileg. Það sem af er árinu 2022 hafa 50% fleiri flugferðir verið pantaðar í gegnum Loftbú í samanburði við allt árið 2021.

Fjölmennasti hópur notenda er á aldrinum 20-24 ára, eða um 9%, og fleiri konur en karlar nýta sér afsláttarkjörin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka