Nemendum með erlendan bakgrunn fjölgar mest

Aldrei hafa jafn margir nemendur verið í skyldunámi í grunnskólum …
Aldrei hafa jafn margir nemendur verið í skyldunámi í grunnskólum landsins. mbl.is/Hari

Aldrei áður hafa jafn margir nemendur verið í skyldunámi í grunnskólum á Íslandi, en skýringin er aðallega sú að nemendum fjölgar vegna flutninga til landsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu Hagstofu Íslands. 

Nemendum án erlends bakgrunns fækkar

Nemendur í grunnskólum landsins voru 46.859 haustið 2021 og hefur þeim fjölgað um 171 frá árinu 2020, eða um 0,4%. 

Hagstofan birti tölur um nemendur í grunnskólum eftir bakgrunni sem ná aftur til haustsins árið 2006. Á því tímabili hefur nemendum án erlends bakgrunns fækkað úr rúmlega 37.900 í tæplega 34.700. Þvert á móti hefur nemendum af erlendum bakgrunni fjölgað.

Fjölgun meðal innflytjenda af annarri kynslóð

Mesta fjölgunin var meðal innflytjenda af annarri kynslóð og fór hópurinn frá því að vera 230 talsins árið 2006 í rúmlega 2.600 árið 2021. Þá hefur innflytjendum fjölgað á sama tíma úr tæplega 1.000 í tæplega 2.400.

Nemendum sem hafa erlent tungumál að móðurmáli hefur fjölgað ár frá ári og voru 12,4% nemenda haustið 2021. 

Skólaárið 2021-2022 störfuðu alls 174 grunnskólar á landinu sem er fjölgun um einn frá fyrra ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka