Landeigandi í Rangárþingi ytra segir fjarskiptafyrirtækið Ljósleiðarann hafa sýnt af sér frekju í verkefni sínu við ljósleiðaralögn milli Þjórsár og Hólsár og plægingu ljósleiðarastrengs um Þykkvabæ.
Telur hann að fyrirtækið hafi átt að taka samtal við landeigendur við gerð samnings sem þeir fengu sendan vegna lagningar ljósleiðarans.
„Fyrir það fyrsta er þetta svo einhliða. Þarna er fyrirtæki að fá að fara í gegnum land hjá fólki en það var ekki boðið upp á neitt fyrir landeigendur heldur var bara einhliða upptalning þeirra á því sem þeir ætluðu að gera.
Svo hét þetta samningur og ég átti bara að skrifa undir allt sem þeir fóru fram á. Ég held að fólk hér hafi ekki séð neinn tilgang í því að skrifa undir,“ segir Þórólfur Már Antonsson, líffræðingur og lóðareigandi í Rangárþingi ytra.
Í skriflegu svari til mbl.is segir Elísabet Guðbjörnsdóttir, verkefnastjóri hjá Ljósleiðaranum, að áhersla hafi verið lögð á góð samskipti við landeigendur.
„Landeigendur þarna í Þykkvabænum eru tæplega 70 talsins og við höfum verið í samskiptum við þá frá því í fyrrahaust, haft samband við hvern og einn persónulega og sent þeim öllum formleg bréf um réttindi og skyldur aðila. Við höfum þannig lagt okkur fram við að samskiptin geti verið sem greiðust.“
Þá sé samningurinn sem sendur var landeigendum staðlaður.
„Slíkt samkomulag er staðlað og byggist á lagalegum réttindum og skyldum fjarskiptafélagsins og landeigenda. Ljósleiðarinn, og vafalaust flest innviðafyrirtæki, gera aragrúa slíkra samninga þegar þörf er á.“
Þórólfur segist vel skilja mikilvægi ljósleiðaravæðingar en telur að Ljósleiðarinn geti komið til móts við samfélagið með einhverjum hætti.
„Hins vegar bendi ég á að ef þetta telst vera samfélagslega mikilvægt verkefni þá gætu þeir komið til móts við fólk og lyft undir önnur samfélagsleg verkefni fyrir þorpið. Það var ekki hugsunin að menn ætluðu að selja sig dýrt hér, okkur fannst þetta bara frekja.“
Enn fremur nefnir Þórólfur að honum finnist verra að vita af því að fyrirtækið geti selt ljósleiðarann til erlendra aðila og nefnir hann söluna á Mílu í því samhengi.
Greint var frá því í október í fyrra að franski fjárfestingasjóðurinn Ardian hefði samið við Símann um kaup á Mílu, sem á og rekur víðtækasta fjarskiptanet landsins. Samkeppniseftirlitið er nú með málið til skoðunar, en samkvæmt frumniðurstöðu þess verður samruninn ekki samþykktur.
„Þeir vilja bara fá þetta um aldur og ævi og áskilja sér rétt til að selja öðrum þetta. Núna er eitthvað franskt fyrirtæki að kaupa Mílu. Mun eitthvað franskt fyrirtæki eiga þetta eftir einhver ár og aldrei fá menn neitt fyrir þetta?“