Ásgeir Guðmundsson, framkvæmdastjóri Innipúkans, segir að hátíðin í ár, líkt og áður, verði stórkostleg tónlistarveisla. Aðspurður segir hann undirbúning hátíðarinnar ganga vel.
Tónlistarhátíðin Innipúkinn fagnar 20 ára afmæli hátíðarinnar um verslunarmannahelgina. Aðaltónleikadagskráin fer fram innandyra í miðbæ Reykjavíkur sem að þessu sinni fer fram í Gamla bíó og á Röntgen. Einnig verður nóg um að vera fyrir útipúkana á götunni fyrir utan staðina.
„Við erum búnir að tilkynna loka dagskrá og erum mjög stoltir af dagskránni sem við höfum þar. Þar höfum við rjómann af því sem hefur verið vinsælast undanfarin misseri í íslensku tónlistarlífi auk þess að við erum alltaf að leita leiða til að kynna nýja til leiks sem eru nýrri í senunni.
Þannig að ég býst við því að Innipúkinn verði stórkostleg tónlistarveisla, og náttúrulega eina tónlistarhátíðin sem er haldin um helgina.“
Spurður um það hvað standi upp úr á hátíðinni í ár segir hann prógramm Bríetar lofa góðu.
„Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Bríetar og er mjög spenntur að sjá hennar prógramm eins og það lítur núna út. Hún er að setja aðeins meira í svona pop-stemmingu. Þannig að við erum að setja hana seint á dagskrá miðað við fyrri prógrömm.
Svo eru það Bjartar Sveiflur sem loka innipúkanum í ár, en það er alltaf mikið stuð í kringum þá. Ég er bara spenntur fyrir þessu öllu.“
Hið þversagnakennda útisvæði Innipúkans verður á sínum stað líkt og fyrri ár. Að sögn Ásgeirs verður Ingólfsstræti lokað á milli Hverfisgötu og Bankastrætis þar sem stólum og bekkjum verður komið fyrir. Þá verða þar veitingar í boði. Einnig verður fatamarkaður í formi skiptimarkaðs og listamarkaður í samstarfi við Flæði á svæðinu í ár.
Svið verður sett upp á útisvæðinu þar sem plötusnúðar munu þeyta skífum og halda uppi stemmingunni úti. Útisvæðið opnar kl. 17 á föstudaginn og kl. 13 á laugardaginn og sunnudaginn. Tónleikadagskrá hefst kl. 20 á Röntgen og kl. 21 í Gamla Bíó.
Dagskráin Innipúkans í ár verður með eftirfarandi hætti:
Föstudagur 31. júlí 22
Hipsumhaps
Inspector Spacetime
Karítas
krassasig
Reykjavíkurdætur
Russian.girls
Teitur Magnússon
Laugardagur 1. ágúst
Aron Can
Emmsjé Gauti
Floni
gugusar
Kusk
RED RIOT
Snorri Helgason
Sunnudagur 2. ágúst
Bassi Maraj
Bjartar Sveiflur
Bríet
Celebs
Eyþór Ingi
Flott
sideproject