Samtökin '78 kæra vararíkissaksóknara

Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78' og Helgi Magnús Gunnarsson …
Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78' og Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari. Samsett mynd

Stjórn Samtakanna '78 hefur ákveðið að kæra Helga Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknara fyrir ummæli sem hann lét falla um hælisleitendur.

Þetta staðfestir Daníel E. Arnarsson framkvæmdastjóri samtakanna í samtali við mbl.is en Fréttablaðið greindi fyrst frá.

Í Facebook-færslu í síðustu viku setti Helgi fram athugasemdir sínar vegna nýfallins dóms Héraðsdóms Reykja­vík­ur þar sem dóm­ur­inn dæmdi að Útlend­inga­stofn­un og kær­u­nefnd út­lend­inga­mála hefðu rang­lega ekki tekið kyn­hneigð manns trú­an­lega, en stefn­andi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi árið 2019 sök­um kyn­hneigðar.

Helgi skrifaði á Face­book: „Auðvitað ljúga þeir. Flest­ir koma í von um meiri pen­ing og betra líf. Hver lýg­ur sér ekki til bjarg­ar? Þar fyr­ir utan er ein­hver skort­ur á homm­um á Íslandi?“

Grefur undan réttarríkinu

Daníel segir stjórnina hafa rætt í dálítinn tíma hvernig skuli brugðist við ummælunum og ákveðið hafi verið á fundi stjórnar fyrr í kvöld að leggja fram í kæru í fyrramálið.

„Ummælin eru mjög alvarleg vegna þess að hann er ekki bara að grafa undan réttarríkinu heldur er hann vararíkissaksóknari. Saksóknarar hafa gríðarlega mikil völd þegar kemur að dómskerfinu vegna þess að þeir ákveða hvað fer fyrir dóm og hvað ekki þannig hann verður að átta sig á því að þetta er valdmikil stofnun,“ segir Daníel.

Þá segir hann ástæðuna fyrir kærunni vera að vararíkissaksóknarinn sé með rógburð um hinsegin hælisleitendur og auk þess segi hann þá ljúga. Þá segir Daníel það ákveðinn rógburð um homma að spyrja hvort það sé ekki skortur á þeim á Íslandi.

„233. gr. a. almennra hegningarlaga er mjög skýr þegar kemur að þessum málum. Það má ekki vera með rógburð gagnvart ákveðnum samfélagshópum þannig að sjálfsögðu hefur stjórn ákveðið að láta á þetta reyna,“ bætir hann við.

Daníel bendir á að samtökin '78 séu til staðar fyrir bæði homma og hinsegin hælisleitendur. „Við erum alltaf til staðar og það má alltaf vera í bandi við okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert