Sprengjusérfræðingar sérsveitar ríkislögreglustjóra ásamt sprengjusérfræðingum Landhelgisgæslunnar hafa lokið við að sprengjuleita farþegarými flugvélar sem lenti á Keflavíkurflugvelli fyrr í dag í kjölfar sprengjuhótunar en ekkert óeðlilegt hefur fundist.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum en vélin sem var á vegum þýska flugfélagsins Condor hafði verið að á flugi frá Frankfurt í Þýskalandi til Seattle í Bandaríkjunum. Hún var yfir Grænlandi þegar sprengjuhótun barst íslenskum flugmálayfirvöldum.
266 farþegar voru um borð í vélinni sem greiðlega gekk að rýma.
Frétt uppfærð 21.45.
Lögregla hefur nú lokið rannsóknarvinnu á vettvangi og heldur hún áfram í flugstöð. Aðgerðastjórn hefur því lokið störfum.