Ljóst er að hitabylgjur eru farnar að verða tíðari í Evrópu og víðar að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings hjá Veðurvaktinni. Spurður um tengsl hitabylgja og skógarelda við loftlagsbreytingar segir Einar:
„Ég held að það sé alveg ljóst að þessar hitabylgjur verða alltaf tíðari í Evrópu og víðar. Menn tengja bæði aukna tíðni hitabylgjanna og mátt þeirra við loftlagsbreytingar. En síðan eru það skógareldarnir sjálfir. Við þekkjum þá umræðu frá því í fyrra, í Kalíforníu og víðar, að hitabylgjur eiga auðvitað þátt í skógareldum.“
„Sérstaklega vegna þess að þegar það verður mjög heitt hefur verið þurrt vikurnar á undan.“ Á Spáni hafa yfir 193 þúsund hektarar af landi brunnið og hafa hitamet verið slegin víða á sama tíma.
Einar segir hitann rifja upp niðurstöðu rannsóknar E. Rousi frá 2020, þar sem rannsakendur komust að þeirri niðurstöðu að tvöföldun á CO2 í lofthjúpi gæti valið þeirri hringrásarbreytingu að sumri í þá veru að þurrkar og hitar yrðu algengari í Evrópu.
Þar var skoðað hvernig tíðni fjögurra einkennandi hringrása við N-Atlantshaf gæti breyst við tvöföldun á koltvísíringi, að því er fram kemur á veðurvef Einars, blika.is.
Þó segir Einar að hafa beri í huga að skógareldar geti einnig kviknað af öðrum ástæðum. „Tengslin eru þarna á milli en þau eru ekki alger. Það getur hreinlega gerst að það sé kveikt í og að menn fari óvarlega með eld,“ segir Einar. Ángel Víctor Torres, forseti Tenerife, greindi frá því nýverið að grunur væri um að íkveikja hafi hrundið af stað skógareldum þar.
„En það er auðvitað meiri eldsmatur þar sem skógarnir eru og það sem brennur er miklu viðkvæmara þegar það kviknar í. Þannig að eldarnir og það sem brennur er þurrara,“ segir Einar að lokum.