Veður um verslunarmannahelgina verður tvískipt að þessu sinni, en mikil úrkoma verður á öllu landinu á föstudag en svo styttir upp smám saman með laugardeginum.
Lægðin fer norður í land á laugardag og fer ekki að stytta upp á þeim landshluta fyrr en seint um kvöldið. Þá á að stytta upp á sunnanverðu landinu rétt eftir hádegi á laugardag.
Í Vestmannaeyjum er spáð úrkomu fram á laugardag. Stytta á upp fyrri hluta dagsins og líklegast verður skýjað með köflum á sunnudag og mánudag.
„Ef fólk er í útilegupælingum, þá er best að tjalda á laugardag eða sunnudag, þá verður búið að stytta upp á flestum landshlutum, þótt það verði svolítið skýjað," segir Marcel de Vries, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Á sunnudag verður bjart með köflum á Austur-og Norðurlandi, en skýjað að mestu leyti fyrir vestan. Veðrið verður með sama móti á mánudag og að sögn veðurfræðings verður allra jafna bjartast á Austurlandi.