Vettvangsrannsókn á nauðlendingu flugvélar á Norðurlandi er lokið. Þetta staðfestir Ragnar Guðmundsson, rannsakandi á flugsviði hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, í samtali við mbl.is.
Lítil flugvél nauðlenti í Tungudal, sunnan við Öxnadalsheiði, á laugardag. Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti tvo menn sem voru á borð og voru þeir heilir á húfi.
„Við kláruðum vettvangsrannsókn og vorum í raun bara að koma í bæinn, svo höldum við áfram með svokallaða frumrannsókn í framhaldinu, þar sem við förum bara í gagnaöflun, viðtöl og fleira,“ segir Ragnar.
Vísbendingar eru um að tæknibilun hafi komið upp í vélinni, en Ragnar segir þó ótímabært að fara nánar út í það þar sem rannsóknin sé ekki komin lengra.